Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:07:43 (6470)


     Jónas Hallgrímsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans svo langt sem þau náðu og vil gjarnan koma efnislega inn á örfáa þætti þess. Það kemur í ljós á svörum samgrh. að það er mikið undirbúningsstarf eftir og upplýsingar um skoðanir flugmálastjóra um nýja flugvöll á Suðurfjörutanga eru nýjar í okkar huga, a.m.k. þingmanna Austurlands eins og fram kom hér fyrr. Ég tek undir orð þeirra beggja. Ég óttast að hér sé verið að drepa málinu á dreif og vara við því.
    Ég hef undir höndum upplýsingar sem sýna að flug til Hornafjarðar er nokkrum vandkvæðum bundið vegna hliðarvinda og annarra náttúrlegra skilyrða og þessi þverbraut mundi verða gífurlega mikil samgöngubót bæði fyrir Austur-Skaftfellinga og Sunn-Mýlinga sem nota þennan flugvöll og hvet eindregið til þess að menn haldi sig við upprunalegar áætlanir. Það eru að vísu skiptar skoðanir um hvar þessi þverbraut eigi að liggja. Annars vegar telja menn um miðju núverandi þverbrautar. Aðrir tala um sunnan við núverandi flugbraut. Ég legg ekki dóm á það, en hvet til þess að málinu sé haldið vakandi og því sé komið í höfn og það sem fyrst.