Ábyrgð verktaka

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:24:00 (6476)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í fréttum að undanförnu að öryggisákvæði um ábyrgð verktaka eru afar veik hér á landi. Það hefur orðið til þess að stór fjöldi fólks hefur orðið fyrir tjónum án þess að unnt hafi verið að láta þá aðila sæta ábyrgð sem hafa framkvæmt verkið og bera þess vegna á því ábyrgð. Hér er um að ræða einn mikilvægasta þátt neytendalöggjafar ef settar yrðu reglur um ábyrgð verktaka vegna þess að hér er um að ræða verkefni, tjón sem oft og tíðum verða til þess ef illa fer að gera svo að segja út af við fjárhag þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli. Reglur og lög um ábyrgð verktaka eru því einn mikilvægasti þáttur neytendalöggjafar, jafnvel mikilvægari en ýmsir aðrir þættir löggjafar af því tagi. Þess vegna hef ég séð ástæðu til að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh. þar sem ég hygg að málið eigi að vistast þó að það geti verið álitamál:
  ,,1. Er þess að vænta að ríkisstjórnin láti semja frv. til laga um ábyrgð verktaka?
    2. Hver yrðu grundvallaratriði slíks frv.?
    3. Hverjir munu semja drög að því frv. ef samið yrði á vegum ríkisstjórnarinnar?
    4. Hvenær telur ríkisstjórnin unnt að leggja slíkt frv. fram?``
    Fsp. er svona orðuð vegna þess að ég hef af því fregnir að það hafi verið lögð fram í iðnrn. drög að frv. til laga um ábyrgð verktaka. Því sé verið að vinna að málinu og ég geng út frá því nánast að segja í þessari fsp. og vænti þess að hæstv. iðnrh. geti upplýst um þrjá síðari töluliði fsp. núna áður en Alþingi lýkur störfum á þessu vori vegna þess að þetta er satt að segja úrslitamál og nauðsynlegt að á því verði tekið með myndarlegum hætti.