Ábyrgð verktaka

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:29:48 (6478)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin og út af fyrir sig taldi ég mikilvægt í þessu máli að það kæmist á dagskrá Alþingis á þessu vori þannig að það væri þá unnt að fylgja því eftir í framhaldinu. Það er vafalaust rétt hjá hæstv. ráðherra að það er kannski ekki nauðsynlegt að á þessu máli verði tekið í einu frv. Það má auðvitað hugsa sér að það sé litið á þetta mál og lagaákvæði um það víðar, bæði í skipulags- og byggingarlögum og sömuleiðis í skaðabótalögum ef sett verða. Í skaðabótalagafrv. eins og það liggur fyrir hérna er ekki verið að gera neitt annað en skrifa niður í lög þær reglur sem hafa orðið til á undanförnum árum og áratugum í hinum íslenska rétti þannig að þar eru náttúrlega engin nýmæli í þessu efni.
    En ég hygg að það sé hins vegar rétt hjá hæstv. iðnrh. að aðalatriðið er það að fólk sé varið þó svo að til gjaldþrota komi hjá viðkomandi verktökum og eina leiðin í þeim efnum er einhver ábyrgðar- eða tryggingarsjóður sem þessum aðilum væri skylt að greiða fé til og síðan að unnt verði að vísa á hann ef illa fer rétt eins og gerist í mörgum öðrum viðskiptum. T.d. í bankakerfinu er gert ráð fyrir því að um slíka sjóðsmyndun sé að ræða, sumpart með beinum hætti og sumpart óbeinum þar sem er ríkissjóður til þess að tryggja hagsmuni einstaklinganna sem eiga t.d. fjármuni í bönkunum og eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli.
    Ég tel satt að segja að þetta sé eitt af allra stærstu málum okkar almennu þjónustu við neytendur á Íslandi. Það eru mörg hundruð manns sem hafa misst allar sínar eignir, svo að segja allar tekjur ævistarfsins oft og tíðum vegna þess að menn hafa fúskað í þessu efni. Það er ólíðandi og það er hlutverk löggjafans að reyna að setja almennar reglur til að verja fólk fyrir því að fjárhagur þess og fjölskyldna þess verði gersamlega eyðilagður vegna þess að verktakar sýna ekki ábyrgð að því er varðar frágang á þeim verkum sem þarf að skila til þessa fólks. Það vill þannig til að sú eina eign sem venjulegur launamaður yfirleitt eignast í þessu landi er ein íbúð eða svo. Það var a.m.k. venjan hér áður. Að vísu er Sjálfstfl. langt kominn með að eyðileggja eiginhúsnæðisstefnuna með vaxtaokurskerfinu, en það er svo annað mál, þannig að það má heita happdrætti fyrir nokkurn ungan mann að eignast íbúð nú til dags eins og þótti sjálfsagt fyrr á árum. Allt um það er þetta yfirleitt það eina sem fólk á, það er ein íbúðarhola, og þess vegna er það úrslitaatriði að það sé haldið á þessum málum af sanngirni og með skynsamlegum hætti.