Ábyrgð verktaka

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:32:55 (6479)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu máli með fsp. sinni. Það hefur því miður alloft komið fyrir að greiðslur og kostnaður hafa fallið á verkkaupa, hvort sem um er að ræða ríkissjóð, einstaklinga eða sveitarfélög. Einmitt þessa dagana var ég að fá fréttir af máli sem lítur mun verr út en áætlað var í upphafi, en það eru skemmdir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, steypuskemmdir, og því miður er áætlað að þurfi að verja háum fjárhæðum til þess að gera við þær. Það er afar slæmt að svo skuli koma upp jafnvel áður en húsið er fullbúið. Þetta lendir á ríkissjóði, hygg ég, nánast að öllu leyti að greiða. Hér er um að ræða samkvæmt bráðabirgðatölum eitthvað yfir 40 millj. kr. og það er afar slæmt að löggjöfin skuli þurfa að vera þannig að verktakinn, Ármannsfell hf., skuli vera að fullu og öllu laus við ábyrgð í þessu máli.