Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:47:00 (6485)

     Fyrirspyrjandi (Björn Ingi Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 889 hef ég lagt fsp. fyrir hæstv. sjútvrh. um starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar svohljóðandi:
    ,,Hefur starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og sjútvrn. uppi áform um að koma á framhaldsnámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk og sértækum námskeiðum, svo sem í flökun eða flatningu fisks.``
    Mjög mikilvægt er fyrir allar starfsgreinar að þar séu ætíð hinir hæfustu starfsmenn og gildir það sama hvort sem verið er að framleiða einhvers konar vöru eða um er að ræða þjónustu af einhverju tagi. Veigamikill þáttur til þess að gera starfsmenn sem hæfasta til starfa sinna er markviss og stöðug starfsþjálfun. Í fiskvinnslunni er ekki hvað mikilvægast þessir þættir séu í góðu lagi, enda er þar verið að meðhöndla fjöregg þjóðarinnar. Ef eitthvað fer úrskeiðis á fyrri stigum vinnsluferilsins verður það ekki bætt á hinum seinni en endanlegt verðmæti afurðanna ræðst af útliti þeirra og gæðum. Sem betur fer eru þessi mál víða í ágætu lagi í fiskvinnslu okkar, enda er ekki nóg að eiga gjöful fiskimið og bera oft og tíðum mikinn afla að landi heldur þarf að tryggja að sem mest verðmæti verði úr öllum aflanum.
    Á síðustu árum hefur starfsfræðsla fiskvinnslufólks verið á vegum starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar. Hafa verið haldin námskeið víða um land og stór hluti fiskvinnslufólks sótt þessi námskeið. Er ekki nokkur vafi á því að þessi námskeið hafa haft góð áhrif og nauðsynlegt er að halda þeim áfram því að nokkur hreyfing er á starfsfólki í greininni og nýir starfsmenn eiga að hafa möguleika á þessum námskeiðum. Síðan er einnig töluverður hópur sem starfar í greininni í lengri tíma og er hinn harði kjarni sem mikið mæðir á. Nauðsynlegt er að þessi hópur hafi möguleika á framhaldsnámskeiðum. Því spyr ég hæstv. sjútvrh. hvort starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og sjútvrn. hafi uppi áform um að koma á starfsfræðslunámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk.
    Þá spyr ég einnig hvort uppi séu áform um sértæk námskeið, svo sem í flökun og flatningu fisks. Að undanförnu hefur það einmitt komið í ljós að þeim hefur fækkað sem talist geta góðir flakarar og aukin vélvæðing valdið þar mestu um. Alltaf eru samt tilfelli þar sem grípa þarf til þessa handverks og fer vaxandi með auknum veiðum á fisktegundum sem lítið hafa verið unnar áður og vinnsla á þeim ekki vélvædd.