Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:50:00 (6486)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Í tengslum við gerð kjarasamninga í síðasta mánuði var um það samið að starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar setti á fót upprifjunarnámskeið fyrir sérhæft fiskvinnslufólk. Undirbúningur þessara námskeiða stendur nú yfir. Námskeiðunum er ætlað að standa í átta klukkustundir og verða haldin þegar hráefnisskortur er í fiskvinnsluhúsum. Á námskeiðunum verður farið yfir flesta efnisþætti sem teknir hafa verið fyrir á grunnnámskeiðum, kynntar nýjungar í tæknimálum, nýjar hreinlætis- og gæðakröfur og fleiri breytingar af því tagi. Er við það miðað að liðin séu a.m.k. þrjú ár síðan starfsmaður lauk grunnnámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk til að honum standi slíkt námskeið til boða. Ráðgert er að námskeið þessi hefjist í september nk.
    Starfsfræðslunefndin hefur bæði að eigin frumkvæði og í samvinnu við verkalýðsfélög og fiskverkendur staðið fyrir flökunarnámskeiðum í Keflavík og í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði. Þess má geta að þátttakendur á námskeiðinu í Keflavík sem verið höfðu atvinnulausir fengu flestir vinnu við flökun að loknu námskeiðinu. Starfsfræðslunefndin hyggst standa fyrir fleiri slíkum námskeiðum, bæði í flökun og flatningu, bæði á eigin vegum og eftir óskum frá verkalýðsfélögum eða fiskverkendum. Við það er miðað að námskeiðsgjöld standi undir slíkum námskeiðum.
    Af þessu tilefni skal tekið fram að í tengslum við gerð kjarasamninga í síðasta mánuði var um það samið að starfsfræðslunefnd stæði fyrir sérstökum námskeiðum fyrir fulltrúa í samstarfsnefndum vegna hópbónuskerfa í fiskvinnslu. Eru fyrstu námskeiðin þegar komin til framkvæmda. Hvert námskeið stendur í átta klukkustundir og fjallar m.a. um mannleg samskipti, fundatækni og uppbyggingu og framkvæmd hópbónuskerfa.
    Þá var einnig um það samið að starfsfræðslunefndin byði upp á sérstök kennslunámskeið fyrir starfsmenn í fiskvinnslufyrirtækjum sem annast móttöku og kennslu nýliða. Undirbúningur þessara námskeiða stendur yfir og er þeim ætlað að standa í þrjá daga. Í undirbúningi er einnig sérstakt námskeið fyrir ræstingafólk í fiskvinnslufyrirtækjum. Þetta námskeið er undirbúið og haldið samkvæmt óskum fiskvinnslufyrirtækjanna og við það miðað að þau standi fjárhagslega undir sér.
    Auk þess sem hér hefur verið nefnt stendur starfsfræðslunefndin fyrir hinum almennu grunnnámskeiðum fiskvinnslufólks vítt og breitt um landið og hefur það verið meginverkefni nefndarinnar undanfarin ár. Að auki hefur starfsfræðslunefnd staðið fyrir margs konar námskeiðum fyrir verkstjóra í fiskvinnslu. Nýverið lauk námskeiðum sem starfsfræðslunefndin stóð fyrir í samráði við fiskiðjuna Skagfirðing á Sauðárkróki fyrir áhafnir togara fyrirtækisins. Námskeiðin stóðu í þrjá daga og eru að verulegum hluta byggð á námsefni grunnnámsskeiða starfsfræðslunefndar. Sú tilraun gaf góða raun og sýndi að mikil þörf er fyrir slíka fræðslu fyrir sjómenn og það verður áframhaldandi verkefni á vegum nefndarinnar.