Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:03:46 (6494)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :

    Hæstv. forseti. Ég svaraði spurningunni alveg beint eins og hún var borin fram og taldi svo sem ekki ástæðu til að bæta neinu þar við. Það kemur mér satt að segja svolítið á óvart að það skuli vera þessi gagnrýnistónn í ræðu hv. fyrirspyrjanda. Ég taldi og tel enn að bókmenntaverðlaun sem þessi muni verða til þess að ungir og óþekktir höfundar finni hjá sér hvöt til að reyna sig við sagnasmíð og alveg sérstaklega þegar verðlaunin eru nú kennd við okkar mesta sagnaskáld Halldór Laxness. Ég bendi á í þessu sambandi að það er fordæmi í menntmrn. fyrir samstarfi ráðuneytisins við bókaforlög um menningarverðlaun. Ég nefni þar að menntmrn. og Mál og menning stofnuðu svokölluð stílverðlaun kennd við Þórberg Þórðarson fyrir örfáum árum, 2--3 árum ef ég man rétt, og þar kom ráðuneytið að með fjárframlagi og setu í dómnefnd líkt og nú er fyrirhugað en ekki með föstum, árlegum fjármunum. Það var ekki þannig.
    Ég er með mér það sem ég sagði á hátíðinni í Þjóðleikhúsinu í tilefni af níræðisafmæli Halldórs Laxness, en þá sagði ég þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að þessu [þ.e. verðlaunasamkeppninni] munu standa í sameiningu menntmrn. og bókaforlagið Vaka--Helgafell. Samkeppnin mun verða opin öllum Íslendingum til þátttöku. Skilafrestur á handritum að óútgefnu skáldverki verði fyrri hluta árs, verðlaun tilkynnt og veitt að hausti og skáldverkið gefið þá út í fyrsta sinn árið 1993. Nánari reglur verða settar á næstunni, en sérstök dómnefnd skipuð fulltrúum ráðuneytisins, Rithöfundasambands Íslands og bókaforlagsins Vaka--Helgafell mun velja skáldsöguna sem hlýtur bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness hverju sinni.``
    Af ráðuneytisins hálfu er sem sagt þetta tvennt ákveðið, að skipa fulltrúa í dómnefndina og veita fé til verðlaunanna í fyrsta sinn.