Málefni Sléttuhrepps

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:15:00 (6499)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að það er þörf á að ráða bót á þessum málum. Ég vil láta koma fram það sjónarmið, sem kemur reyndar fram í samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðar, að bæjarstjórnin telur eðlilegt að sá hluti Grunnavíkurhrepps sem tilheyrir hinu friðlýsta svæði á Hornströndum verði einnig með í þessari sameiningu. Það er ekki framkvæmanlegt að mínu viti að taka hluta af Hornströndum og sameina öðru sveitarfélagi, t.d. Ísafirði, en skilja eftir hinn hlutann. Þetta er eiginlega orðið eitt samfellt svæði þar sem ferðamenn eru á ferð um og það verður þá að gerast með allt friðlýsta svæðið í heild, taka það saman að mínu viti og reyndar að áliti bæjarstjórnar Ísafjarðar. Ég tel því að hæstv. ráðherra ætti að huga að þessum sjónarmiðum og vinna samkvæmt þeim ábendingum sem hún hefur fengið bæði frá mér og bæjarstjórn Ísafjarðar.
    Hvað varðar Grunnavíkurhrepp í heild er það sjónarmið út af fyrir sig, sem ég tel rétt að minna á, að ég hygg að væri nauðsynlegt og jafnvel þarft verk af hálfu hæstv. ráðherra að kanna hug íbúa í Snæfjallahreppi til sameiningar í eitt sveitarfélag með hinum forna Grunnavíkurhreppi, Sléttuhreppi og sveitarfélagi við vestanvert Ísafjarðardjúp. Ég hygg að það væri rétt að kanna það og ég veit að það eru uppi þau sjónarmið að þetta svæði fylgist allt að. Ég er sammála hæstv. ráðherra um Árneshrepp, að það er ekki fýsilegur kostur að sameina í þá áttina og í raun og veru landfræðilega enginn ávinningur.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ég tel að þetta sé ekki einkamál Ísafirðinga. Íbúar þessara tveggja fornu hreppa hafa flutt ekki bara til Ísafjarðar heldur víðar og ég hygg að fleiri eigi að koma að þessu máli á meðan það er á umræðu- og vinnslustigi. Þar er eðlilegast að taka öll sveitarfélögin við vestanvert Ísafjarðardjúp, Ísafjörð, Bolungarvík og Súðavík, en ég hygg að það komi líka til álita, eins og hæstv. ráðherra hefur að nokkru leyti gert, að snúa sér til héraðsnefndar og líta á hana sem sameiginlegan málsvara fyrir þessa aðila.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, varpa fram þeirri hugmynd, sem ég tel einnig koma til álita vegna sérstöðu þessa svæðis, að það verði ekki sameinað sveitarfélagi heldur jafnvel fellt undir héraðsnefnd. Það mundi hins vegar kosta lagabreytingu, hygg ég, en þó er ég ekki alveg viss því að ákvæði sveitarstjórnarlaga um byggðasamlög er ákaflega rúm. En þetta er hugmynd sem ég tel vert að leggja inn í þessa umræðu.