Afgreiðsla frumvarps um málefni fatlaðra

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:56:00 (6501)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þannig háttaði til að á fundi félmn. sl. mánudag, síðari fundi nefndarinnar þann dag, sáum við nefndarmenn skjal frá Ríkisendurskoðun til félmrn. frá 11. júlí 1990 þar sem fjallað er um Sólheima í Grímsnesi. Sl. þriðjudag óskaði einn nefndarmaður eftir því við formann félmn. að haldinn yrði í nefndinni fundur um þetta mál og fenginn til fundarins fulltrúi Ríkisendurskoðunar. Þeirri beiðni var hafnað af hálfu formanns nefndarinnar. Hér er um mál að ræða sem hefur áhrif á umfjöllun og afstöðu manna til frv. til laga um málefni fatlaðra. Þar sem ég hef heyrt út undan mér að fyrirhugað sé að halda fund í félmn., a.m.k. einn, áður en þingi lýkur vil ég beina þeirri frómu ósk til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að þetta mál verði tekið fyrir á þeim fundi og að á þann fund komi fulltrúi Ríkisendurskoðunar.