Atvinnuleysistryggingasjóður

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:24:00 (6514)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. var að lýsa því yfir að ríkisstjórnin mundi flytja fjáraukalagafrv. og leita eftir heimildum til að auka fjármagn til atvinnuleysisbóta. Það er út af fyrir sig mikilvæg ákvörðun, en þá eftir sá vandi: Hvað verður gert þar til slíkt fjáraukalagafrv. hlýtur samþykki á Alþingi? Það virðist ekki vera ætlun ríkisstjórnarinnar að flytja slíkt frv. nú. Þing á að koma saman 17. ágúst, að vísu fyrst og fremst til að fjalla um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. En jafnvel þótt flutt væri frv. til fjáraukalaga til afgreiðslu á þinginu í ágúst eða byrjun september er alveg ljóst að fjmrh. hefði ekki heimildir Alþingis til að auka greiðslur úr ríkissjóði vegna atvinnuleysisbóta fyrr en í fyrsta lagi í september eða ef fylgt er hefð að flytja fjáraukalagafrv. á hinum reglulega tíma þingsins í október, þá mundi hann ekki hafa heimildina að öllum líkindum fyrr en í lok október eða byrjun nóvember. Þá er alveg ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. Svavar Gestsson var að flytja að fjármunirnir verða þrotnir og samkvæmt yfirlýsingum hæstv. fjmrh. og því frv. sem fjárln. hefur flutt hér og ætlunin er að gera að lögum fyrir lok þessa þings hefur hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin ekki lagaheimild til að greiða út atvinnuleysisbætur í júlí, ágúst, september eða október þegar fjármunirnir sem eru í fjárlögunum eru þrotnir. Það er þess vegna nauðsynlegt að inna hæstv. forsrh. eftir því eða hæstv. fjmrh. áður en þetta frv. verður afgreitt hér: Hefur ríkisstjórnin tekið ávörðun um það að flytja frv. um fjáraukalög á þinginu í ágúst þannig að þingið í ágúst verði ekki aðeins um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði heldur einnig um frv. til fjáraukalaga? Ef ekki þá standa verkalýðshreyfingin og hinir atvinnulausu í landinu frammi fyrir því að fá ekki atvinnuleysisbætur vegna þess að ríkisstjórnina skorti lagaheimildir til að greiða þær út umfram það sem í fjárlögunum er.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh., ef hann vill upplýsa það hér, hvort ríkisstjórnin hefur þá tekið ákvörðun í ljósi orða hans hér um að flytja fjáraukalagafrv. fyrir hinn hefðbundna umfjöllunartíma Alþingis um fjármálefni ríkisins sem er venjulega í byrjun októbermánaðar.