Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:39:52 (6521)


     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :

    Hæstv. forseti. Það er alrangt hjá hæstv. forsrh. að við séum ekki að ræða þingsköp. Við erum tilbúin til þess að flýta fyrir þessari umræðu en hlutum auðvitað að þurfa að vita það áður en hún hæfist hvort við mundum tala fyrir daufum eyrum.
    Eitt er það atriði sem hefur bæst við í þessu máli sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir og tel þess vegna að það hleypi málinu í enn meiri vanda. Ég talaði við nokkra banka í morgun. Það hefur enginn rætt við neinn í bankakerfinu um að annast þessa fyrirgreiðslu við námsmenn sem heila málið sem varðar eftirágreiðslu hefur snúist um. Þeir forstöðumenn banka sem ég talaði við lofa engu um að lána hverjum sem er eftir öðrum reglum en almennt gerist, og krefjast þess að menn séu með trygga ábyrgðarmenn og ekki einn heldur tvo eins og almennt gerist um lán þannig að það er á engan hátt tryggt að þeir námsmenn sem ekki hafa sæmilega stæða ábyrgðarmenn fái yfirleitt lán. Síðan upplýstu bankamenn mig um að bankakerfið réði ekkert við þennan nýja hóp ef sú athugun ætti að fara fram og það eftirlit sem því fylgdi án þess að bæta við umtalsverðu starfsliði. Þessi þáttur málsins er bara gersamlega í lausu lofti. Og ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. og ekki síður hæstv. menntmrh. sem ég hef meiri reynslu af samstarfi við og eins og hér hefur áður komið fram svo ágæta að ég fól honum sem þingforseti ásamt samforsetum mínum að stýra vinnunni við að koma Alþingi í eina málstofu, ég treysti honum enn til að vinna sín verk vel og samviskusamlega og ég vil spyrja hann og hv. þm. Alþfl.: Hafa menn virkilega gert sér ljóst hvert hér er verið að fara og væri nú ekki ráð í allri vinsemd að menn settust niður og ræddu þessi mál, þennan þátt málsins? Það er ekki leið til að stjórna löndum eða þjóðum að berja hausnum við steininn og segja, hvaða rök sem upp koma í máli: Ég breyti engu. Ég held að þetta atriði málsins hljóti að verða að skýrast áður en við hefjum þessa umræðu. Ég þykist vita að ég geti talað fyrir munn stjórnarandstöðunnar allrar. Ef menn gætu upplýst okkur um hvort þetta á virkilega að verða þannig að það eigi að þvinga þetta frv. óbreytt nú í gegnum þingið geta menn auðvitað ekki farið fram á að umræðu ljúki hér eftir einn og hálfan tíma og síðan verði málinu bara hleypt í gegnum þingið. Þannig er það ekki. ( Forseti: Það var samkomulag um að þessi umræða tæki tvo tíma.)