Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:45:50 (6524)


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það eru satt að segja komnar fram mjög merkilegar upplýsingar sem hljóta að krefjast þess að menn skoði þessi mál aðeins betur.
    Í fyrsta lagi neitaði hæstv. menntmrh. í gær að greina frá þeim tillögum að úthlutunarreglum sem nú liggja fyrir í ráðuneytinu. Hann neitaði að segja frá þeim.
    Í öðru lagi liggur fyrir að það hafi ekki verið gerðir neinir samningar við bankana og það er rétt, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði, að það hefur kannski verið rætt við einhverja banka en ekki nærri alla. Og hæstv. menntmrh. viðurkenndi áðan að það hefði aldrei verið rætt við Búnaðarbankann. Hvað er hann þá að veitast að hv. 14. þm. Reykv. með svigurmælum um að hún fari með rangt mál og sé í raun og veru að segja ósannindi um upplýsingar framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna? Hæstv. menntmrh. sagði það sjálfur í gær að það hefði aldrei verið talað við Búnaðarbankann.
    En auðvitað er það þannig að til þess að hægt sé að lenda þessu máli þar sem á að taka af námsmönnum lánsrétt jafnharðan, þá verður að liggja fyrir hver er afstaða bankanna. Það er algerlega óhjákvæmilegt. Og ég skil ekki hvernig menn láta sér detta í hug að halda að hér sitji þvílíkir veifiskatar að þeir láti það gerast að mál þetta verði afgreitt án þess að það séu fyllri upplýsingar fyrirliggjandi um afstöðu bankanna. Mér datt satt að segja ekki annað í hug í gær, virðulegi forseti, þegar þessi mál voru til umræðu en að bæði mundu úthlutunarreglurnar liggja fyrir og sömuleiðis frekari upplýsingar um afstöðu bankanna. En það liggur ekki fyrir. Það er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, og hlýtur að krefjast þess að maður skoði málið ögn nánar.
    En það er mikilvægt hins vegar, virðulegi forseti, að hafa fengið þessar upplýsingar áður en hin formlega umræða hefst og þó sérstaklega þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem fram kom í svari við fsp. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Það var athyglisvert að það var hér einn ráðherra og situr enn sem þagði og þegir, formaður Alþfl., hæstv. utanrrh. Hann hefur ekki sagt orð og kemur okkur ekki á óvart vegna þess að hann er vanur því að láta hæstv. forsrh. tala fyrir sig. Viðeyjarundrin tala, með leyfi forseta, einum rómi eins og segir í EES-samningnum.