Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:50:09 (6526)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan til þess að fá einfalt svar við því hvort það væri rétt sem ég hafði heyrt á göngum þingsins að hæstv. ríkisstjórn væri að hugleiða að breyta því ákvæði frv. sem hefur valdið mestum deilum. Hæstv. forsrh. svaraði því í sjálfu sér alveg skýrt og sagði nei og þá hefði kannski ekki verið þörf fyrir ítarlegri umræðu af minni hálfu. En síðan gerist það að hæstv. menntmrh. kemur upp með slíkar yfirlýsingar að það er alveg ljóst að allt það hugarfar og þann anda sem var í því að framkvæma þingstörf hér í dag er hæstv. menntmrh. búinn að sprengja í loft upp.
    Fyrst segir hæstv. menntmrh. að hv. þm. Guðrún Helgadóttir fari með skrök, ósannindi, viti ekkert hvað hún sé að tala um og hvort hún sé að bera skrök og ósannindi upp á embættismann Lánasjóðs ísl. námsmanna. Síðan kemur hæstv. menntmrh. og fer að dylgja um að embættismenn menntmrn. standi í meira trúnaðarsambandi við fyrrv. menntmrh. en núv. menntmrh. Ég held að það hafi aldrei gerst á Alþingi fyrr að ráðherra lýsir yfir hér úr ræðustól að hann væni embættismenn ráðuneytis síns um trúnaðarbrest og krefjist þess að fá það upplýst hér í þingsalnum hvaða embættismenn séu sekir um slíkan trúnaðarbrest gagnvart ráðherranum.
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði á forsetann segja áðan að það hafi verið samið um það að þessar umræður tækju bara tvo tíma og svo ætti að skrúfa fyrir þingheim eftir þessa tvo tíma. Það má vel vera að það hafi verið rætt í gær, en eftir þær yfirlýsingar sem hæstv. menntmrh. gaf hér um 14. þm. Reykv., Guðrúnu Helgadóttur, flutti í garð Svavars Gestssonar og embættismanna menntmrn., þá er gersamlega útilokað að það sé hægt að ljúka þessum umræðum á tveimur tímum, gersamlega útilokað. Það þarf í fyrsta lagi að reiða það fram hvor segir satt, hv. þm. Guðrún Helgadóttir eða framkvæmdastjóri lánasjóðsins, Lárus Jónsson. Menntmrh. hefur stillt málum þannig hér upp nú að hv. þm. Guðrún Helgadóttir sé ósannindasmanneskja. Og þessum umræðum verður ekki lokið, virðulegi forseti, hvað sem líður því samkomulagi sem menn gerðu í góðri trú í gær og af heilindum og treystu þá að menn mundu haga sér að siðaðra manna hætti í dag án þess að það verði komið alveg skýrt fram, fyrst menntmrh. hefur stillt málunum svona upp, að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafi rækilega aðstöðu til að sanna mál sitt og sá þáttur sem víkur einnig að fyrrv. menntmrh. Og samskiptum hans við menntmrn. er einnig þess eðlis að það verður að koma inn í umræður. Ég vil þess vegna segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að mér finnst þær forsendur sem voru við lýði í gær þegar menn ræddu í ákveðnum jákvæðum anda um að haga þingstörfunum með tilteknum hætti eins og forseti lýsti vera brostnar. Hæstv. menntmrh. sprengdi þær forsendur í loft upp áðan.