Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:53:47 (6527)


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er leitt til þess að vita að hæstv. menntmrh. skuli tortryggja svona starfsliðið í ráðuneytinu og ég vona satt að segja að ég geti leyft mér að ávarpa þetta fólk á götu þegar ég hitti það á förnum vegi án þess að það valdi því að núv. hæstv. menntmrh. verði sviptur nætursvefninum. ( ÓÞÞ: Verða viðkomandi reknir?) Ég sagði það ekki, hv. þm., að viðkomandi yrðu reknir, mér datt það í sjálfu

sér ekki í hug, en ég er satt að segja svo dolfallinn yfir þessu máli að ég ætla ekki að segja neitt um það frekar. Mér finnst afar sérkennilegt að bera svona lagað á starfsmenn sína. Ég man aldrei eftir að ráðherrar hafi gert það.
    Ég ætla aðeins að víkja að hinu málinu sem snertir drög að reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Hæstv. menntmrh. hefur aftur og aftur svarað eins og hann hefði þessi drög um úthlutunarreglur undir höndum eða a.m.k. grundvallaratriði þeirra. Ég minni t.d. á svörin sem hann gaf í gær við spurningum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, en milli kl. 7 og 8 í gærkvöld svaraði hæstv. menntmrh. ýmsum spurningum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og var útilokað annað en draga þá ályktun af þeim svörum að hæstv. ráðherra hefði þessi drög að svörum undir höndum. En ég spyr: Getur það verið um úthlutunarreglur sem eigi að taka gildi 1. júní að það sé ekki farið að vinna að þeim í ráðuneytinu? Trúir því nokkur maður að þar sé svo illa unnið að það sé ekki byrjað að draga saman forsendur í þessar reglur og setja þær á blað? Það er algerlega útilokað, virðulegi forseti. Þess vegna hljótum við að gera kröfu um að úthlutunarreglurnar í drögum, hvort sem það er frá ráðuneytinu eða lánasjóðnum, komi hér á borð þingmanna.