Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:56:00 (6528)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það var hv. þm. Guðrún Helgadóttir sem stillti þessu máli þannig upp að það væri framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna, Lárus Jónsson, sem væri ósannindamaður. Það var hv. þm. sem sagði það með því að segja að viðræður við bankana hefðu ekki farið fram. ( ÓRG: Hvað ætli bankarnir segðu þingmanninum?) Já, þá þyrfti hv. þm. Guðrún Helgadóttir að upplýsa við hverja hún hefur talað í bankakerfinu. ( Gripið fram í: Maður er bara í yfirheyrslu.) Ja, hér er verið að bera mönnum á brýn mjög alvarleg ósannindi. Það er það sem er verið að gera.
    Varðandi það sem ég sagði um trúnaðarsamband hv. þm. Svavars Gestssonar við starfsmenn menntmrn., þá var annað af tvennu sem hlaut að hafa átt sér stað, að hv. þm. hefði upplýsingar úr menntmrn. eða hann væri að fara með fleipur. Hann hefur hins vegar gefið núna aðra skýringu og hún er sú að hann dregur þá ályktun af mínum orðum að ég hljóti að hafa undir höndum drög að úthlutunarreglum. Það hef ég ekki. Það sem ég hef sagt eru orð sem ég hef eftir framkvæmdastjóra lánasjóðsins um það sem rætt hefur verið í stjórninni varðandi einstök atriði sem koma munu fram í úthlutunarreglunum. Það byggist einfaldlega á viðtölum við framkvæmdastjórann, það sem ég hef sagt, en ekki á drögum sem ég á að hafa undir höndum. Ég tek þá skýringu hv. þm. gilda að hann hafi dregið þá ályktun af mínum orðum að ég hlyti að hafa reglugerðina eða drög að reglugerð og úthlutunarreglum undir höndum, en svo er ekki.
    Að öðru leyti geymi ég mér að ræða þetta mál þar til það kemur á dagskrá.