Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:02:47 (6532)


     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Við stöndum nú frammi fyrir því að væntanlega hefst bráðlega framhald 3. umr. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það hefur verið upplýst hér, sem reyndar lá fyrir í gær, að það er alls ekki ljóst hvort bankakerfið muni bregaðst við því sem hér á að fara að samþykkja sem er það að námsmenn fái ekki lán sín greidd fyrr en eftir á, þ.e. þeir fyrstu fá sín lán væntanlega í janúar. Að mínum dómi er þetta algert lykilatriði í þessu máli. Við höfum haldið uppi harðri andstöðu gegn þessum fyrirhuguðu áformum og teljum þetta vera mjög alvarlegt og ég tel mjög brýnt að við fáum úr því skorið hver afstaða bankakerfisins er í þessu máli. Hér er orð gegn orði. Ég legg til, virðulegi forseti, að það verði gert hlé á þessari umræðu, kallaður saman fundur í menntmn. og við fáum þangað talsmenn bankanna og fáum úr því skorið hver er vilji bankakerfisins. Mér finnst ekki hægt að ganga svona frá þessu máli og ég vísa til þess sem hefur verið skrifað í Morgunblaðinu þó að ég treysti því blaði ekkert betur en öðrum. En það er alveg greinilegt að þar á bæ eins og víða úti í þjóðfélaginu er fólk loksins að átta sig á hvað hér er á ferð og að þingheimur ætli síðan að samþykkja þetta óbreytt er alger óhæfa, hæstv. menntmrh. Því ítreka ég að ég held að við verðum að fá úr þessu skorið.