Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:06:29 (6534)


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki heyrt neinn mann útiloka þann möguleika að þessari umræðu ljúki í dag. Auðvitað er hugsanlegt að menn ræði þessi mál eitthvað nánar sín á milli og þar reynir á samkomulagsvilja ríkisstjórnarliðsins fyrst og fremst, m.a. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram hafa komið hér um það hvernig á málum stjórnarandstöðunnar hefur verið tekið. Ég vísa á bug ásökunum og hótunum hv. 8. þm. Reykv. þegar hann var að gefa í skyn að mönnum yrði sýndur hnefinn ef þeir yrðu ekki til friðs og það þýddi ekki mikið fyrir þá að tala því að þetta færi allt í gegn hvort eð er, eins og hæstv. forsrh. orðaði það svo smekklega hér á dögunum og það skipti engu máli sem við erum að segja í stjórnarandstöðunni. Ég vísa orðum hans á bug að þessu leytinu til, en þau eru mjög alvarleg vísbending um hótun, að þeir hæstv. forsrh. og hv. 3. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv. ætli að beita þessum ráðhúsvaltaravinnubrögðum á Alþingi Íslendinga.
    Hitt var líka einkar athyglisvert sem kom fram hér áðan, virðulegi forseti, og það var að þegar hæstv. menntmrh. heyrði að ég nefndi þann möguleika að það væru til úthlutunarreglur í ráðuneytinu eða drög að þeim taldi hann tvennt vera til: Í fyrsta lagi að hv. þm. færi með fleipur og í öðru lagi að embættismenn ráðuneytisins væru að leka sérstaklega upplýsingum í forvera hans, þ.e. þann mann sem hér stendur. Ég hef aldrei áður heyrt ráðherra bera sig upp undan sínum samstarfsmönnum með þessum hætti og ég segi alveg eins og er að ég finn til með því fólki sem vinnur í Sölvhóli um þessar mundir ef það er undir fargi slíkrar tortryggni af hálfu Sjálfstfl.