Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:13:19 (6536)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er ekkert dæmi þess á þessum þingvetri að stjórnarliðar hafi ekki staðið við það samkomulag sem þeir hafa gert við stjórnarandstöðu. Það er ekkert dæmi þess að stjórnarliðar hafi lýst því yfir að einhverjar forsendur hafi breyst og þess vegna geti þeir hlaupið frá samkomulagi. Það er alveg ljóst og það er öllum mönnum ljóst að það var engin forsenda fyrir þessu samkomulagi um vinnubrögð, að þegar fallist var á tilhögun þá sem formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar lögðu til væri því lýst yfir að stjórnarflokkarnir, ríkisstjórnin ætlaði að falla frá einhverjum efnisatriðum varðandi lánasjóðinn. Það var engin forsenda þannig að þar eru engar forsendubreytingar. Og það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur öll að orð geti staðið. Það er reyndar mjög mikilvægt í hinu mannlega lífi og það er afskaplega mikilvægt að orð manna geti staðið varðandi samkomulag af þessu tagi, afskaplega mikilvægt, líka fyrir hv. þm. ( ÓRG: Það er líka mikilvægt að menn segi satt.) Já, ég skal gjarnan fara í samkeppni við hv. þm. um það í tilverunni og er ekkert hræddur við þá samkeppni.