Stofnun og slit hjúskapar

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 15:41:28 (6541)

     Frsm. allshn. (Björn Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, og lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923. Frv. þetta er flutt af allshn. Aðdragandi þess er sá að fyrir nefndinni liggur frv. til nýrra hjúskaparlaga, 452. mál, sem fjallar um sama efni og lög nr. 60/1972 og lög nr. 20/1923. Það mál kom til nefndarinnar 6. apríl sl. og ljóst þykir að ekki gefst tími til að fjalla um það með viðunandi hætti á þessu löggjafarþingi. Í því frv. eru lagðar til breytingar sem m.a. eru mikilvægar í sambandi við væntanlegan aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem tekur gildi þann 1. júlí nk. Eru þessar breytingar teknar úr áðurnefndu frv. og settar í frv. það sem nú er mælt fyrir.
    Þetta frv. kveður á um breytingar sem sumar hverjar eru nauðsynlegar, en aðrar mjög æskilegar vegna væntanlegs aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Auk þess kveður frv. á um nokkrar breytingar sem fela í sér verulegar réttarbætur fyrir aðila.
    Frv. skiptist í þrjá kafla. I. kafli fjallar um breytingar á lögum um stofnun og slit hjúskapar. Breytingarnar sem lagðar eru til við gildandi lög varða í fyrsta lagi V. kafla sem fjallar um hjónaskilnaði, í öðru lagi að VII. kafla, um réttarfar í hjúskaparmálum, verði breytt í heild sinni og í þriðja lagi að í lögin komi nýr kafli, er verði VIII. kafli, um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögunum.
    II. kafli frv. fjallar um breytingar á lögum um réttindi og skyldur hjóna. Þar er meginbreytingin sú að lagt er til að stjórnsýslukaflinn sem getið var um áðan gildi líka í þessum lögum. Er þetta lagt til við bæði lögin til þess að gæta samræmis við barnalög sem samþykkt voru 9. maí sl.
    III. kaflinn fjallar um gildistöku og lagaskil.
    Hvað breytingarnar varðar að öðru leyti er vísað til greinargerðar með frv. Vegna þess að frv. þetta er flutt af allshn. tel ég ekki ástæðu til þess að málinu verði vísað til nefndarinnar.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.