Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:22:00 (6552)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Björn Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta allshn. um frv. til laga um umboðsmann barna, 123. mál. Eins og fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar þykir frv. fjalla um málefni sem er athyglisvert og kanna verður nánar. Í því sambandi má nefna að kanna verði tengsl málsins við frv. til laga um vernd barna og ungmenna, 422. mál, sem nú er til umfjöllunar í félmn. Þarf m.a. að athuga hvort verkefni þau sem frumvörpin mæla fyrir um skarist. Huga þarf nánar að fyrirhuguðum verkefnum umboðsmanns barna þannig að starfsmörk hans séu skýr og starfsemin grípi ekki inn í starfssvið annarra stofnana. Athuga þarf og frv. þetta vandlega með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis. Fleira mætti nefna. Er það álit meiri hluta nefndarinnar að vel færi á því að sifjalaganefnd tæki málið til rækilegrar endurskoðunar. Í ljósi þess sem nefndin hefur sett fram í áliti sínu leggur hún til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Jón Helgason, Björn Ingi Bjarnason, Kristinn H. Gunnarsson og Björn Bjarnason. Fjarstödd afgreiðslu nefndarinnar voru Eyjólfur Konráð Jónsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Þ. Þórðarson.