Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:35:10 (6554)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við hv. 14. þm. Reykv. erum sammála um þá afgreiðslu sem hér er lögð til, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Hún deildi hins vegar á röksemdafærsluna í áliti meiri hluta allshn. Ég vil taka fram að ég er frsm. nefndarinnar. Hv. 17. þm. Reykv. er varaformaður nefndarinnar og hann hét því að nefndin mundi veita þessu máli viðunandi afgreiðslu. Mér heyrist nú að við séum sammála um að þessi afgreiðsla sé viðunandi.
    Nefndin dregur ekki í efa sjónarmið umboðsmanns Alþingis. Það sem nefndin er að minna á í þessu sambandi er að það sé nauðsynlegt að það sé skoðað hvort þetta kunni að rekast á og þar verður auðvitað tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður Alþingis hefur sett fram.
    Varðandi hitt atriðið, spurninguna um hvort frv. til laga um vernd barna og ungmenna sem hér er til umræðu kunni að valda því að hugmyndir um umboðsmann barna og barnaverndarráð skarist, þá kom það fram í nefndinni og er nauðsynlegt að að sjónarmið komi líka fram í umræðunni að t.d. í Noregi þar sem er umboðsmaður barna eru barnaverndarráð ekki með sama hætti og hér og þess vegna er þetta sjónarmið sett fram, sú spurning hvort það sé ástæða til þess að vera bæði með umboðsmann barna og einnig barnaverndarráð og þá stjórnarfarslegu starfshætti sem verið er að tala um í hinu nýja frv. Það er þetta sem við viljum að sé skoðað og viljum að sifjalaganefnd líti á og menn athugi þetta þannig að það sé sem best samræmi í allri þessari nýju löggjöf varðandi börn og vernd þeirra.