Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:37:03 (6555)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þó að þetta frv. sé vissulega sniðið, eins og ég hef ævinlega sagt frá, að norsku lögunum kemur það málinu í raun og veru ekkert við vegna þess að í Noregi eru ekki það sem við köllum barnaverndarnefndir heldur eru félagsmálaráð hvers fylkis stofnanir út af fyrir sig, en umboðsmaður barna þar í landi vinnur ekkert á þeirra vegum. Það embætti er algerlega sjálfstæð stofnun.
    Ég vil aðeins segja þetta: Hefði verið einhver vilji til að afgreiða þetta mál á þessu þingi hefði þessi athugun og könnun auðvitað farið fram þegar málið kom til nefndarinnar en ekki verið dregið þangað til í lok mars. Það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að ég féllst á þessa afgreiðslu, en ég hlaut að skýra frá því sem mér sýnist um þessa afgreiðslu. En ég stend við það að ég mæli þá með að málið fái þessa afgreiðslu í trausti þess að dómsmrh. gangi í að skila þá frv. um embætti umboðsmanns barna.