Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:38:19 (6556)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég hef ekki blandað mér mikið í umræður um þetta mál á þessum vetri. Ég hef fyrir allnokkru gert það upp við mig að ég vildi vera í hópi þeirra þingmanna sem styddi það að hér yrði stofnað embætti umboðsmanns barna. Ég sannfærðist um það strax í fyrsta skipti þegar ég las þetta mál yfir og kynnti mér gögn í tengslum við það að það væri til bóta, það væri þörf réttarbót í okkar landi fyrir þá sem hvað erfiðasta aðstöðuna hafa til að bera hönd fyrir höfuð sér, þ.e. börnin, að fá þetta embætti. Og ég get þess vegna ekki neita því að mér finnst það heldur dapurlegt að það þing sem nú situr skyldi þó ekki geta a.m.k. komið þessu þarfa máli fram. Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, þó það sé kannski ekki á sínum stað að ræða það undir þessum dagskrárlið, að mér hefði ekki þótt af veita þó þetta annars að mörgu leyti dapurlega þing sem nú lýkur senn störfum hefði náð að bæta a.m.k. þessu jákvæða máli við afrekaskrá sína í vetur. Það hefði ekkert veitt af, herra forseti, eins og ýmislegt hefur þróast hér í vetur og gengið fyrir okkur alþingismönnum við löggjafarstörfin á þessum vetri.
    Ég held að embætti umboðsmanns barna á Íslandi sé sérstaklega þarft eða mikilvægt vegna þess að við vitum það, Íslendingar, að það er mörgu ábótavant í stjórnkerfi okkar hvað þennan málaflokk snertir. Ég held að allir hugsandi menn hljóti að viðurkenna að stjórnkerfi okkar og meðferð mála á þessu sviði er á ýmsan hátt ábótavant. Það ber að vísu að viðurkenna að hér hafa legið fyrir þinginu frumvörp, fleiri en eitt, sem taka á réttarstöðu barna og maður batt vissar vonir við það hér um miðbik vetrarins að kannski mundi þetta Alþingi brjóta í blað í sögu þessara mála með því að afgreiða þessi mál öll, sem hér hafa verið til umfjöllunar, og þá að sjálfsögðu embætti umboðsmanns barna einnig. Það hefði ég talið virkilega verðugt ef svo hefði tekist til.
    Ég tel einnig að reynslan af embætti umboðsmanns Alþingis eigi að vera okkur ákveðin leiðarstjarna í þessu sambandi. Ég er alveg sannfærður um að embætti umboðsmanns Alþingis hefur þegar skilað ýmsum úrbótum í réttarkerfi og stjórnsýslu Íslendinga. Ég t.d. sem ráðherra get borið um að í mörgum tilvikum höfðu ráðuneytin ákaflega gott af því að fá það aðhald og fá þá úttekt á sínum störfum sem embætti umboðsmanns Alþingis hefur þegar orðið. Ég vil ekki vera að nefna einstaka málaflokka eða einstök nöfn í því sambandi, en þó fara menn sennilega nærri um það hvað ég er að hugsa eða út frá hvaða reynslu ég tala, en ég nefni t.d. álit umboðsmanns Alþingis þar sem tekið var á jafneinföldum hlutum og reglum sem ráðuneytin hafa í sambandi við að svara erindum. Það reyndist mjög þörf lexía fyrir ég held öll eða velflest íslensku ráðuneytin sem embætti umboðsmanns Alþingis hafði þeim að kenna í sambandi við jafneinfalda praktíska hluti og þá að hafa röð á innkomu erinda og reglu á því með hvaða hætti þeim væri svarað. Það var t.d. stórkostlegur misbrestur og er kannski enn, því miður, á því að ráðuneytin tilkynntu um móttöku erinda, létu vita af því að þeim höfðu borist erindi sem þeim væru send þannig að sendandinn vissi að erindið hafði komist á áfangastað og væri þar til umfjöllunar og síðan enn meiri misbrestur á því að ráðuneytin með reglubundnum og skipulögðum hætti svöruðu öllum erindum sem til þeirra koma. Ég tek af handahófi eitt atriði meinlaust og einfalt sem engan á að særa þó að á þetta sé bent.
    Ég er alveg sannfærður um að íslenska stjórnsýslan og réttarkerfið hvað varðar málefni barna hefði mjög gott af sambærilegu aðhaldi. Ég trúi því að það sé hægt að segja á fót embætti umboðsmanns barna án þess að það þurfi að verða eitthvert geysilegt bákn eða mikil stofnun. Ég tel satt best að segja, svo að ég vitni aftur til umboðsmanns Alþingis, að þar séu unnin ótrúlega afkastamikil störf af fáu fólki og satt best að segja lygilegur sá fjöldi erinda sem umboðsmaður Alþingis kemst yfir að svara og ljúka miðað við þann mannafla sem þar starfar. Við erum að vísu heppin og vitum það og trúum því að við höfum verið lánsöm með mönnun á því embætti og það er vel og ég er alveg sannfærður um að sama gæti orðið uppi á teningunum varðandi umboðsmann barna ef vel tækist til.
    Ég vil láta þessi sjónarmið koma hér fram, herra forseti, við þessa afgreiðslu á málinu ef afgreiðslu skyldi kalla. Ég skal að vísu taka undir það með hv. flytjanda og 14. þm. Reykv. að maður gerir það þá í trausti þess, að láta sér þessa afgreiðslu lynda, að það sé í alvöru verið með jákvæðum hætti að vísa þessu máli til frekari vinnslu á vegum stjórnvalda. Og ég treysti því að það verði unnið að því að koma málinu í endanlegan búning til afgreiðslu þess á næsta þingi.
    Nú er reyndar hv. 1. flm. frv. genginn úr salnum, en ég vona að ég megi taka það fyrir afstöðu hv. þm. að þetta mál verði þá ósköp einfaldlega endurflutt á þingi ef ekki verður komin upp í því sú staða að nýtt frv. verði lagt fyrir af hálfu ríkisstjórnar strax á næsta þingi. Ég vil leggja þann skilning í afgreiðsluna og þau jákvæðu orð sem uppi eru höfð í nál. að menn séu að þessu í trausti þess að dómsmrn. eða eftir atvikum sifjalaganefnd eða hverjum þeim aðila öðrum sem falið yrði að vinna að málinu verði falið að gera meira en bara skoða þetta, verði beinlínis falið að fara yfir frv. með það í huga að leggja það fyrir Alþingi á nýjan leik og þá til afgreiðslu vonandi.
    Í trausti þessa alls ætla ég ekki að hafa um þessa afgreiðslu fleiri orð né málið í heild sinni, en ítreka það að ég vona að það líði þá ekki mörg þing í viðbót áður en þetta þarfa framfaramál á sviði íslenskrar stjórnsýslu og réttarfars verði lögfest.