Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:53:00 (6559)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi óska eftir því að hv. þm. Geir Haarde geti verið viðstaddur ræðu mína, a.m.k. að hluta. Hann var í salnum fyrir tveimur mínútum.
    Það kom fram hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni að hann undraðist að frv. sem hann hefur flutt og hefur að öllum líkindum, ég er honum sammála um það, stuðning meiri hlutans í þinginu næst ekki út úr nefnd. Og ég spyr formann þingflokks Sjálfstfl. og formann þingflokks Alþfl.: Hefur verið tekin ákvörðun um það í stjórnarflokkunum, þingflokkum stjórnarflokkanna að afgreiða ekki þingmannafrv. og tillögur af því tagi sem hér er verið að fjalla um eða er það þannig að það séu fulltrúar stjórnarflokkanna í einstökum nefndum sem eru að taka þessar ákvarðanir einir og sér? Ég spyr vegna þess að eins og ég vék að fyrr hér í dag hefur smátt og smátt á síðustu 20 árum verið sem betur fer að þróast sú venja og þeir siðir hér í þinginu að þrátt fyrir ágreining milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga hafa verið afgreidd í sívaxandi mæli frumvörp og þáltill. frá þingmönnum sem þorri, ég legg áherslu á það, þorri þingmanna er sammála um að séu góð mál. Þetta hefur oft verið gert þannig að milli flokkanna hafa farið fram ákveðnar óformlegar viðræður um það þegar fer að líða að lokum þingsins hvaða mál þetta eru. Ég hef ekki orðið var við slíkar viðræður núna. Mér er ekki kunnugt um að þær hafi farið fram. Ég veit að við í Alþb. höfum sett fram og formaður okkar þingflokks gert grein fyrir því hvaða mál það eru sem við gjarnan vildum að yrðu afgreidd, en mér sýnist að enn sem komið er hafi ekki farið fram neinar viðræður milli flokkanna með þessum hefðbundna hætti. Ég vona satt að segja að það hafi ekki verið tekin ákvörðun um það af hálfu stjórnarflokkanna að fara að taka upp nýjar venjur og vil þess vegna spyrja þessa tvo ágætu þingmenn, formenn þingflokka stjórnarliðsins, hvort hér hafi verið tekin ákvörðun um ný vinnubrögð eða hver sé þeirra skýring á því að þetta er með þessum hætti. Ég gæti nefnt fleiri mál sem dæmi, en ég ætla ekki að gera það hér.
    Vegna þess frv. sem hér er til umræðu töldum við mörg að það frv. væri einmitt þess eðlis að um það ætti að geta náðst samstaða í þinginu. Það vill svo til að þetta þing er að afgreiða ýmsa veigamikla þætti varðandi málefni barna. Hér er verið að afgreiða ný lög um það efni. Hér er verið að afgreiða alþjóðlegan sáttmála um málefni barna og það mæltu öll rök með því að þetta frv., sem mikill stuðningur er við úti í þjóðfélaginu, væri í fylgd hinna málanna tveggja. Menn hafa spurt: Hvers vegna var það ekki afgreitt á fyrri árum? Ég get staðfest það, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér, að þegar menn voru

að reyna að stýra farsælum lokum þinghaldsins á undanförnum árum var það yfirleitt þannig að þingmannamálin sem höfðu forgang voru þingmannamál sem fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna voru í forsvari fyrir eða þá þingmannamál sem ekki snertu forustu þingsins eða forustu stjórnarflokkanna með neinum séstökum hætti. Það þarf auðvitað ekki að útskýra það fyrir jafnþingvönu fólki og er í salnum að það að taka út úr frv. sem forseti Sþ. var 1. flm. að var nokkuð snúið, bæði fyrir stjórnarflokkana og ég tala nú ekki um fyrir forsetann. Auðvitað geta menn svo sagt: Það átti ekki að láta þær venjur hafa áhrif á sig. Gott og vel, það getur fyllilega átt rétt á sér. En þannig er nú málið einfaldlega vaxið.
    Nú aftur á móti snýr þetta öðruvísi við. Ég vil segja við hæstv. dómsmrh. að mér er fullkunnugt um að hv. Þm. Guðrún Helgadóttir lagði mikla áherslu á að þetta frv. yrði afgreitt. Hún hafði treyst því að hér í þinginu yrði reynt að ná samkomulagi undir lokin um það hvaða mál önnur en stjfrv. væru afgreidd. Það hafði verið gert samkomulag í þingflokki Alþb. um að þetta frv. væri efst af þeim sem við vildum leggja áherslu á að væru afgreidd af frv. sem þingmenn hafa flutt. Og þetta mál er hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur mjög kært. Hún hefur lagt mikla vinnu í þetta mál á undanförnum árum og hefur haft metnað fyrir hönd þess málstaðar sem í frv. er um að það fengi farsæla siglingu í höfn á þessu þingi.
    Það hefur komið fram hjá henni, bæði í umræðum í okkar flokki og eins í þingsalnum --- hæstv. dómsmrh. var að vísu hér fjarstaddur, að vegna þess að hún ber sérstakt traust til hæstv. dómsmrh. af kynnum þeirra á undanförnum árum hefur hún fallist á að hún eigi aðild að þeirri till. sem hér verða greidd atkvæði um og ég veit að það er ekki létt ákvörðun fyrir hana. Það er þess vegna nokkuð mikils virði, bæði fyrir okkur í Alþb. og fyrir flm., að hæstv. dómsmrh. taki með ákveðnum hætti þátt í umræðum og lýsi sinni afstöðu til málsins vegna þess að við erum að standa að þessari afgreiðslu í trausti þess að af fullri alvöru og myndugleik verði unnið að málinu í sumar. Þegar komið verði til nýs þings verði málið flutt í þeim búningi sem menn geta sætt sig við. Ég vona að sá andi samkomulags sem einkennir þessa afgreiðslu muni einnig setja svip sinn á þá vinnu sem fram fer í málinu í sumar. Mér þætti vænt um ef hæstv. dómsmrh. vildi þannig taka þátt í umræðum, en ítreka að öðru leyti spurningu mína til formanna þingflokka stjórnarliðsins hvort það hafi verið tekin stefnumótandi ákvörðun um að skilja eftir nánast alfarið málefni einstakra þingmanna innilokuð í nefndum þingsins þótt ljóst sé að yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sé reiðubúinn að greiða ýmsum af þeim málum atkvæði sitt.