Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:01:46 (6561)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að slík ákvörðun hefur ekki verið tekin. Það er mjög dýrmætt að það kemur fram að slíkt hefur ekki verið gert.
    Í framhaldi af því vil ég lýsa þeirri skoðun minni að þá er mjög óeðlilegt að fáeinir, kannski þrír, fjórir eða fimm, þingmenn sem mynda meiri hluta í einstakri þingnefnd séu að koma í veg fyrir að mál eins og t.d. það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson nefndi áðan og hefur yfirgnæfandi stuðning í þinginu, tel ég víst og öruggt, séu ekki afgreidd úr nefndinni. Ég tel það mjög alvarlegt ef fáeinir þingmenn, innan við 10% af þinginu, eru þannig að koma í veg fyrir að mál sem eiga meirihlutastuðning séu afgreidd til atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég vil því beina því til forseta þingsins og annarra sem hlut eiga að máli að fyrst engin slík stefnumótandi ákvörðun hefur verið tekin verði forustu þingnefndanna gert það ljóst að þær hafi ekkert umboð til þess að koma í veg fyrir að frumvörp sem hafa yfirgnæfandi stuðning séu afgreidd sem lög frá Alþingi eða þáltill. sem slíkan stuðning hafa séu afgreiddar sem ályktanir Alþingis.