Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:05:15 (6563)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að veita þessar upplýsingar. Ég vil hins vegar taka fram að ég treysti alveg orðum hv. þm. Geir Haarde. Ég taldi enga ástæðu til að vefengja að hann talaði fyrir hönd beggja stjórnarflokkanna þegar hann lýsti því yfir að engin stefnumótandi ákvörðun hefði verið tekin af hálfu stjórnarflokkanna. Ég þakka fyrir að það komi fram með þessum hætti.
    Mér fannst hins vegar athyglisvert að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sá ástæðu til að benda á að í þeim nefndum þar sem Alþfl. sæti í forsæti hefðu ýmis mál frá stjórnarandstöðunni verið afgreidd, m.a. í þeirri nefnd þar sem hann er í forsæti, iðnn. Þetta er rétt. Ég get einnig staðfest það þegar ég fer að hugsa málið að í hv. umhvn., þar sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er formaður, hafa líka verið afgreiddar þáltill. frá stjórnarandstöðunni. ( GHH: En allshn.?) Ég hef nú ekki farið nákvæmlega yfir þetta, hv. þm. ( GHH: Hann vitnaði til þess.) Til allshn.? Það má vel vera. Ég skal ekki segja nákvæmlega til um það. Ég tek nú eftir því að hv. þm. Björn Bjarnason er loksins farinn að hlæja hér í þingsalnum. Það er alltaf skemmtilegt þegar hann fer að hlæja, maður tekur eftir því hvenær það er. En hins vegar væri gagnlegt að gera smáathugun því hvort þetta er misjafnt eftir nefndum, hvort þetta fer kannski eftir persónuleika og lyndi formanna nefndanna en ekki eftir flokkum. Ef þetta er þannig að það eru einhverjar geðþóttaákvarðanir einstakra formanna í nefndunum sem ráða því hvernig afgreiðslu mál fá er það út af fyrir sig mjög slæmt. Þess vegna beini ég nú því til forsvarsmanna þingsins og þingflokkanna að það verði skoðað hvort þetta er mismunandi eftir nefndum því að það er alveg ljóst, eins og hv þm. Ingi Björn Albertsson sagði hér áðan, að það er sérstaklega verið með níðast m.a. á tillögum sem hann hefur flutt.