Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:07:00 (6564)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hætti aldrei að verða hissa á þeim þingmanni sem hér talaði, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Það vill nefnilega svo til, þó að hv. þm. virðist ekki skilja það, að þá hafa nefndirnar forræði yfir sínar eigin málum. Það er ekki um neina fjarstýringu að ræða þar. Það kann vel að vera að það hafi verið svo meðan hann var í meiri hluta í þinginu. Það er bara ekki svo, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Menn reyna að starfa eftir öðrum aðferðum og öðrum viðhorfum en bersýnilega hafa ráðið hér ríkjum þegar þessi hv. þm. hafði meiri völd í salnum en nú.
    Ég vil að það komi alveg skýrt fram að það er dálítið gaman að því að heyra hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson vera að tala fjálglega um þingstörfin og það kemur fram í ræðu hans að hann veit ekkert hvað er að gerast í þessu þingi. Hann er alltaf svo upptekinn við málæði og málæfingar að hann má ekkert vera að því að kynna sér hvað er að gerast í nefndunum. Út um allar nefndir er hins vegar verið að samþykkja tillögur, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, frá stjórnarandstöðunni eins og vera ber því að þar er fullt af góðum tillögum.