Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:13:16 (6567)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég var nokkuð undrandi á síðustu setningunum í ræðu hæstv. dómsmrh. Ég hélt að hann gerði sér grein fyrir því að við erum að reyna að þoka þessu máli áfram og sýnum ákveðna tiltrú í garð hans sem ráðherra þegar við tökum þátt í því að afgreiða það með þeim hætti og hv. flm. Guðrún Helgadóttir lýsti því yfir fyrr í dag að hún hefði ekki haft þá afstöðu ef embætti dómsmrh. væri skipað einhverjum öðrum án þess að hún væri að tilgreina það nokkuð sérstaklega. Hæstv. ráðherra veit auðvitað af því að hann hefur verið fjmrh. að fjmrh. fer ekki að skoða kostnaðarþætti einstakra frv. nema annaðhvort komi um það beiðni frá viðkomandi ráðuneytum, sem gerðist ekki frá dómsmrn. meðan ég var fjmrh., eða frá viðkomandi þingnefndum. Það tíðkast ekki að fjmrh. hafi frumkvæði að því eða fjrmn. að skoða slíka hluti. Það veit hv. þm. Þess vegna fannst mér þessar lokasetningar um mig ekki alveg passa í þann anda sem hér var. En ætli maður reyni ekki að gleyma þeim.