Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:54:00 (6571)


     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Hv. 14. þm. Reykv. var að gagnrýna ákveðinn hlut. Hv. þm. hafði farið fram á að við þær óljósu upplýsingar sem hér liggja fyrir kæmu aðilar frá bönkunum á fund menntmn. ef ég hef rétt heyrt. Heyrði forseti ekki þessa gagnrýni? Mér finnst það ekkert óeðlilegt við þær óljósu upplýsingar og orð hæstv. menntmrh. hér í dag að fulltrúar bankakerfisins kæmu. Hér hefur verið lesið upp mjög óljóst bréf frá Landsbanka Íslands sem greinilega veit ekkert um hvað málið fjallar. Ég vil taka það fram af því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði áðan að Búnaðarbankinn hefði ekki rætt málið að Búnaðarbankinn hefur beðið frá 9. apríl eftir því að lánasjóðurinn hefði samband. Þá barst honum bréfið í hendur, 9. apríl. Menn eru þar með alls konar námsmannalínur og viðskipti við ungt fólk í stórum stíl um allt land. Frá 9. apríl í vor hefur verið beðið eftir því að menn ræddu málið við bankann. Svo eru menn undrandi á því að menntmn. fær ekki að tala við forsvarsmenn bankanna og hæstv. forseti leyfir sér að hafa hneykslunartón í orðum sínum. Ég tek undir með hv. 14. þm. Reykv. Auðvitað verða menn að kalla bankakerfið saman. Hafa þingmenn Sjálfstfl. ekki áttað sig á því að það er verið að henda eftir hverja önn öllum þeim ágætu nemendum sem sýna bestan árangur, þá er þeim sópað út úr kerfinu og þeir verða að byrja upp á nýtt, ganga til foreldra sinna, systkina og frændgarðs og biðja um nýja uppáskrift? Hefur hæstv. menntmrh. ekki áttað sig á þessu atriði? Það er þetta sem ríkisstjórnin ætlar sér.
    Auðvitað á það að vera svo að ungur maður sem hefur staðist fyrstu önn er kominn inn í kerfið og hann fær sína eðlilegu framvindu meðan honum gengur vel í náminu. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt þar sem ekkert liggur fyrir frá bankakerfinu að það gerist að forsvarsmenn bankanna fái viðræður við lánasjóðinn. Það liggur heldur ekkert fyrir um það í hinum bönkunum hvort lánasjóðurinn hefur rætt við Landsbanka Íslands eða Íslandsbanka. Það liggur ekkert fyrir um það. En það er eitt sem liggur fyrir. Búnaðarbanka Íslands hefur verið skrifað óljóst bréf 9. apríl sl. Síðan hefur ekki verið haft samband við hann. En þar hafa menn beðið eftir að fá frekari upplýsingar um hvað málið snerist.