Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:57:15 (6572)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Hvernig má það vera að samningaumleitanir við banka um aðstoð við námsmenn

skuli allt í einu vera orðið að aðalmáli í umræðum um lánasjóðsfrv.? Þessar umræður kvikna vegna upplýsinga sem ég gef um að stjórn lánasjóðsins, framkvæmdastjóri lánasjóðsins hafi tekið upp viðræður við bankana námsmönnum til hagsbóta um lán meðan þeir bíða eftir láni frá lánasjóðnum. Svo verður þetta allt í einu að meginmáli í umræðunni. Hvernig í ósköpunum má þetta vera? Ég næ þessu ekki. Það er ekkert í frv. um þetta, ekki eitt einasta orð og átti ekkert að vera. En þegar skýrt er frá því að lánasjóðsstjórnin taki þetta upp hjá sér til þess að milda áhrifin fyrir námsmenn af kerfisbreytingunni, þá verður allt vitlaust hér í þinginu. Þið verðið að afsaka þó að ég eigi mjög erfitt með að skilja þetta.
    Svo kemur hv. þm. Guðrún Helgadóttir og les upp bréfið frá Landsbankanum án þess að biðjast afsökunar á fyrri orðum sínum í dag þar sem hún lýsti því yfir að engar viðræður væru hafnar við bankana. Svo les hún upp bréf frá Landsbankanum sem staðfestir að viðræður voru hafnar. Henni hefði nú verið sæmra, hv. þm., um leið og hún hafði lokið lestri bréfsins að biðjast afsökunar á því sem hún sagði hér í dag. ( GHelg: Ég mótmæli.) Er það ósatt? Hvað er ósatt? (Gripið fram í.) Nú væri fróðlegt að fá útskrift af ræðu hv. þm. í dag. Eigum við ekki að biðja um það í sameiningu að fá þá útskrift?
    Hv. þm. Guðni Ágústsson kemur svo upp líka, og vel að merkja, hann er formaður bankaráðs Búnaðarbankans, og er stórhneykslaður á því að fulltrúar bankakerfisins skuli ekki hafa verið boðaðir á fund menntmn. Til hvers? Er enn verið að rengja framkvæmdastjóra lánasjóðsins um að viðræður séu hafnar og á hvaða stigi þær eru? Og ég spyr hv. formann bankaráðs Búnaðarbanka Íslands, hv. þm. Guðna Ágústsson: Átti á fundi menntmn. að semja við fulltrúa bankanna með hvaða hætti fyrirgreiðslan yrði? Áttu þeir að koma til þess á fund nefndarinnar? Þykir formanni bankaráðsins líklegt að einhverjir fulltrúar bankanna, ég á þá við úr bankastjórninni en ekki úr bankaráðinu, mundu fara að upplýsa menntmn. um það með hvaða hætti aðstoðin kynni að verða? Mér finnst einhvern veginn að það sé það sem til er ætlast af fulltrúum bankanna, að þeir komi á fund menntmn. til að upplýsa um eitthvað slíkt.