Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:00:50 (6573)

     Valgerður Sverrisdóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég er farin að velta því fyrir mér hvernig maður eigi að koma sér á framfæri á hv. Alþingi ef maður ætlar að ræða efnislega um það mál sem er á dagskrá því að ég er búin að vera fyrsti þingmaður á mælendaskrá um Lánasjóð ísl. námsmanna í allan dag og vegna þess að ég hef ekki kosið að ræða þann dagskrárlið undir liðnum þingsköp hef ég ekki komist að. Það verður kannski að fara að hafa þann hátt á að ræða þetta undir þeim lið.
    Mér er skylt að greina frá því hér að það var gert samkomulag í gær og, reyndar var það ítrekað aftur í dag, um það að reyna að ljúka þessari umræðu í dag á tveimur klukkutímum, að ljúka henni á tveimur klukkutímum. Ákveðinn þingmaður var strax með fyrirvara, það er rétt að það komi líka fram. Í dag var þingskapaumræða þar sem óskað var eftir fundi í hv. menntmn. um þetta tiltekna mál. Það var ekki orðið við því að fulltrúar úr bankakerfinu kæmu á þann fund heldur var farið þess á leit að framkvæmdastjóri lánasjóðsins kæmi í stað fulltrúa frá bankakerfinu. Við urðum við því að fundurinn yrði í hálftíma og á hann kæmi framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna. Auðvitað var það ekki nákvæmlega það sem beðið var um, en við urðum þó við því. Það verður að segjast eins og er að það kom ekki margt nýtt fram í þeirri umræðu, en ég hafði hugsað mér undir dagskrárliðnum Lánasjóður ísl. námsmanna að greina frá því sem kom fram á þeim fundi. En ég hef ekki fengið tækifæri til þess enn þá. Þetta vildi ég að kæmi fram, hæstv. forseti.