Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:04:00 (6575)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég gat ekki orðið við ósk virðulegs forseta er málflutningur hæstv. menntmrh. áðan í garð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir stóð upp áðan til að koma því á framfæri að vegna þess að ekki hefur verið orðið við hennar ósk um að kalla fulltrúa banka fyrir sig mundi hún áskilja sér rétt til að tala í umræðunum. Annað var það nú ekki. Hún taldi hins vegar nauðsynlegt að rökstyðja það. Og það hefur komið fram í samtölum milli fulltrúa flokkanna síðdegis í dag að það gætu verið að einstakir þingmenn sem vegna atburða í dag teldu sig þurfa að tala.
    Þá gerist það að hæstv. menntmrh. kemur upp undir þingsköpum og fer að ráðast á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir það að hún skuli ekki hafa beðist afsökunar á orðum sínum fyrr í dag og dregið þau til baka. Hvílík vinnubrögð! Hvað er hæstv. menntmrh. og stjórnarmeirihlutinn að gera og formaður menntmn.? Hv. þm. Guðrún Helgadóttir fer fram á að fulltrúar bankanna séu kallaðir fyrir til þess að hægt sé að sannreyna hvort hún hefur rétt fyrir sér eða ekki. Menntmrh. og formaður nefndarinnar, þingmaður Sjálfstfl., neita því að fulltrúar bankanna séu kallaðir fyrir í nefndinni. Síðan er sú neitun notuð til þess að

ráðast á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og segja að henni sé sæmst að biðjast afsökunar þegar þessir sömu þingmenn og þessi sami ráðherra hafa neitað að hægt sé að kalla á þá sem geta sannreynt hvort hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur á réttu að standa eða ekki. Hvílík keðja af vinnubrögðum. Ráðast fyrst á þingmanninn í dag, neita því svo að verða við ósk hennar um að kalla fulltrúa bankanna fyrir. Látum nú vera ef það hefði verið staðar numið þar. Nei takk. Kemur ekki hæstv. menntmrh. upp undir þingsköp til að segja hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að hún ætti að biðjast afsökunar og draga orð sín til baka þegar henni hefur verið neitað um að fá að sannreyna hvort þau eru rétt eða ekki. Það var kannski þess vegna sem hæstv. menntmrh. stóð þannig að samkomulaginu að eingöngu mátti kalla á fulltrúa hans, Lárus Jónsson, í nefndina til þess að hæstv. menntmrh. gæti komið og ráðist á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Það eru engin heilindi í svona vinnubrögðum, engin.
    Ég get upplýst að það varð niðurstaðan hjá okkur í Alþb. að við ætluðum ekki að taka þátt í víðtækum umræðum um málið þótt einstakir þingmenn okkar, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, gætu auðvitað haft sinn rétt til að tala. Það var sá réttur hennar sem hún var að árétta og eingöngu það.
    En ég lýsi furðu minni á því að jafnþingvanur maður og hæstv. menntmrh. skuli síðan bregðast við með þessum hætti. Ef þetta er þannig að stjórnarliðið ætlar að nota þá tvo klukkutíma sem menn eru að reyna að fella umræður inn í til svona árása og svona framgöngu og beita svo meirihlutavaldi sínu hér í þinginu til að neita mönnum um að kalla fyrir fulltrúa viðskiptabankanna, þá eru það slík vinnubrögð að ég þekki engin dæmi þess. Ég var formaður þingflokks með hæstv. menntmrh. á mjög erfiðum tíma þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var við völd 1980--1983. Slíkt og annað eins og nú er að gerast hefði aldrei getað gerst þá og voru þó aðstæður mjög erfiðar.
    Og hvers konar lýðræðishugsun er það hjá formanni menntmn. að neita því að fulltrúar viðskiptabankanna séu kallaðir fyrir í 10 mínútur eða korter? Hvers konar lýðræðishugsun er það? Og hvers konar siðferði er það að ráðast á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir að hún skuli ekki hafa beðist afsökunar á því sem hún sagði í dag þegar henni er neitað um að fá að kalla vitnin fyrir? Satt að segja skil ég ekki hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur á þessu máli. Það er eins og þeir séu að gera allt til að sprengja meðferð þess í loft upp. Þegar búið er að ná sæmilega viðunandi niðurstöðu milli flokkanna rís hæstv. menntmrh. upp aftur eins og hann gerði í dag til að sprengja það samkomulag í loft upp. Sæmst væri að hæstv. menntmrh. kæmi upp og bæði hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur afsökunar og leyfði henni svo að standa fyrir máli sínu hér í umræðunum og svara henni þar en komi ekki fram með þessum hætti.