Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:09:00 (6576)


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég óskaði eftir því á fundi menntmn. að það yrði bókað mjög nákvæmlega sem fram kom af upplýsingum á þeim fundi. Ég óskaði eftir því að fá afrit af fundargerðinni til að hafa hana á þessum fundi. Mér er ekki ljóst hvort farið var eftir fyrri ósk minni þar sem sú síðari hefur ekki verið virt. Ég sá það að sjálfsögðu fyrir að hér ætluðu menn að vitna út og suður um það sem framkvæmdastjóri lánasjóðsins hefði sagt á þessum fundi. Ég man ágætlega kjarnann í því sem hann sagði. En ég ætla ekki enn að gera neitt annað en ítreka að formaður menntmn. sjái til þess að þessi fundargerð verði afhent. Ef svarið er nei, þá kemur það skýrt fram hvor hefur rétt fyrir sér, hæstv. menntmrh. eða hv. 14. þm. Reykv. Það kemur reyndar líka fram þó svarið verði já.