Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:10:47 (6577)


     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það var vegna spurningar sem hæstv. menntmrh. varpaði fram til mín þar sem hæstv. ráðherra var að vísu staðinn að því að reyna að snúa út úr ummælum í ræðu minni áðan.
    Það hvarflaði ekki að mér að bankamenn kæmu á fund nefndarinnar til að semja eins og hann sagði heldur var það hitt sem ég var að fara fram á og það kemur glöggt fram frá námsmönnum í áskorun í Morgunblaðinu í dag til þingmanna. Þeir hafa ekki hugmynd um sjálfir hvernig þeir eiga að mæta því, ef frv. verður að lögum, hvað eftirágreiðsluna varðar. Það snýst um það atriði og bankarnir hafa ekki séð þetta líkan og hafa enga vissu um hvernig málið snýr. Þess vegna var ég að fara fram á að menn skrifuðu ekki bara bréf 9. apríl heldur færu með líkanið til bankanna og spyrðu: Getið þið mætt þessu? Getið þið hjálpað öllu þessu unga fólki eða verða það kannski 2.000 af þeim 8.000 ungmennum sem stunda nám sem verða sett á guð og gaddinn og verða að hverfa frá námi af því að þau hafa ekki ábyrgðir, ekki frændgarð sem getur skrifað upp á? Það var þetta atriði sem ég var að ræða um þannig að þetta snýst aðeins um eitt atriði, þ.e. eftirágreiðsluna. Það er í mikilli óvissu, hæstv. menntmrh. Ég verð að játa að þegar ég heyrði um samkomulag í gær um að ljúka þessari umræðu taldi ég víst að menntmrh. hefði orðið við kröfum stjórnarandstöðunnar og háværum röddum, bæði sínum flokki og Alþfl., um að þessu ákvæði yrði breytt þannig að mönnum væri ekki eftir hverja önn hent út um dyrnar aftur heldur, ef þeir hafa staðist önnina og væru komnir inn í lánakerfið, fengju þeir að halda sig þar.
    Þessir menn í ríkisstjórninni eru alls staðar í fortíðinni. Þegar ég var drengur var það siður t.d. á böllum að tvískipta skemmtuninni. Annars vegar voru skemmtiatriði og svo böll á eftir. Svo var húsið sópað og hreinsað út og þá byrjuðu menn að borga aftur. Nú á að hafa þetta svona í námslánakerfinu, að unga fólkinu, um leið og það er búið með hverja önn þó að það hafi fengið 10 í einkunn eða 13, skal sópað út aftur og það skal byrja upp á nýtt. Þetta snýst aðeins um þetta atriði.

    Ég er ekki í vafa um að bankarnir geta mjög marga hluti og hafa góða þjónustu á sínum vegum, bæði Búnaðarbankinn og hinir bankarnir, en lágmarkið er að þeir svari því áður en málið er afgreitt á Alþingi hvort þeir ráða við það sem verið er að fara fram á og hvað er verið að fara fram á við þá. Það liggur nefnilega ekki fyrir. Menntmrh. getur hlegið í sæti sínu og snúið út úr fyrir þingmönnum ef honum sýnist svo. En hann skal svara því: Hvernig á að standa að málinu? Um hvað er verið að tala? Þetta er ekkert grín.