Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:23:47 (6585)



     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Hér fyrr í dag óskaði ég eftir því að það yrði haldinn fundur í menntmn. til þess að við sem þar sitjum gætum aflað okkur upplýsinga um afstöðu bankakerfisins til þess sem hér er að gerast. Því miður var því hafnað. Við fengum ekki að ræða við fulltrúa bankakerfisins. Þess í stað var kallað á framkvæmdastjóra lánasjóðsins og var heldur lítið á honum að græða.
    Hæstv. menntmrh. varpaði því fram í dag hvort minni hluti menntmn. hafi ætlað sér að semja við bankana. En þetta mál snýst auðvitað um það hvað verið er að gera hér. Hvaða afleiðingar mun þetta frv. hafa? Þær afleiðingar snúa ekki síður að bankakerfinu og almenningi, áhrifum á efnahagslífið, en lánasjóðnum sjálfum og þeim sem eiga viðskipti við hann.
    Hér er verið að tala um að lána án tillits til efnahags fé úr opinberum sjóðum og maður hlýtur að spyrja: Hvernig kemur þetta heim og saman við stefnu Alþfl.? Hvernig kemur þetta heim og saman við þá stefnu sem lýst var sl. mánudagskvöld, annars vegar þar sem rætt var um hinar sanngjörnu leikreglur og þá ekki síður þau ummæli hæstv. utanrrh. að nú ætti fyrst og fremst að taka tillit til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Það er nefnilega ekki heil brú í stefnu ríkisstjórnarinnar. Á einum stað er unnið að því að reyna að ná niður lánsfjárþörf ríkisins og vöxtum, það er verið að semja um það í kjarasamningum, en á hinum endanum er hæstv. menntmrh. sem er að beina þúsundum námsmanna út í bankakerfið sem hlýtur að þýða að það verður aukin eftirspurn eftir lánsfé í bankakerfinu. Það er þess vegna sem við vildum fá að ræða við fulltrúa bankakerfisins. Hvaða áhrif hefur þetta? Hversu margir munu leita til bankanna? Hvað er verið að tala um háar fjárhæðir? Hvaða áhrif mun stóraukin eftirspurn á þessum almenna lánsfjármarkaði hafa á vextina? Hvernig kemur það heim og saman við stefnu ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum? Hvernig kemur það heim og saman við kjarasamningana sem var verið að gera? Við vildum fá svar við þessu. En svörin sem við fáum, niðurstaðan af öllu saman er að þessir menn vita ekkert hvað þeir eru að gera. Þeir vita ekkert hvaða áhrif þetta muni hafa.
    Það sem hér er að gerast er það að enn einu sinni á að fara að samþykkja lagabálk sem hefur í för með sér stórfelldar breytingar fyrir námsmenn en menn neita algerlega að skoða hver áhrifin verða á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Ég tel, eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu, að áhrifin muni koma fram á lánamarkaðnum, húsnæðismarkaðnum, í launabaráttu framtíðarinnar og í félagslegri og fjárhagslegri stöðu fjölda ungra karla og kvenna, einkum og sér í lagi kvenna. Við erum að tala um breytingar sem hafa áhrif til margra, margra ára. En veit ríkisstjórnin hversu mikil þau áhrif verða? Vita hv. stjórnarþingmenn hve mikil þau áhrif verða? Nei. Þeir vita það ekki. Þeir vita nefnilega ekkert hvað þeir eru að gera og þeir vilja ekki vita það. Þess vegna sitja þeir ekki hér í salnum. Þess vegna eru þeir ekki hérna. Þeir vilja ekki vita hvað verið er að gera með örfáum undantekningum. Og það vissi framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna ekki heldur.
    Þess í stað er verið að stunda stórfelldar blekkingar í pólitískum tilgangi. Það er nefnilega ekki stjórnarandstaðan sem er að stunda blekkingar eins og haldið var fram í sjónvarpsumræðunum á mánudag. Það eru menntmrh. og fylgisveinar hans sem stunda hér stórfelldar pólitískar blekkingar. Og þeim gengur fyrst og fremst tvennt til að mínum dómi. Það er annars vegar að það er verið að framkvæma bókhaldsbrellur, það er verið að reyna að bjarga fjárlögum þessa árs með því að velta 800 millj. yfir á næsta ár. Hins vegar, og það er kannski það alvarlega, er verið að sveigja námslánakerfið undir markaðslögmálin. Það er verið að gera Lánasjóð ísl. námsmanna að hverjum öðrum fjárfestingarlánasjóði. Afleiðingin af því er sú að það er verið að vísa fjölda námsmanna út á guð og gaddinn. Og ég vil enn þá spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað á að verða um þá þar? Hvaða vinnu á þetta fólk að fá í því ástandi sem nú ríkir? Hvað á að verða um þetta fólk? Ég hlýt að spyrja að því.
    Ég ítreka það, sem ég sagði í ræðu minni í gær, að það verður eftir því tekið hvað stjórnarþingmenn gera í þessu máli. Og ég vil í fullri vinsemd beina því til þeirra enn og aftur að taka ekki þátt í þeim óhæfuverkum sem hér á að fremja. Hugsið þið nú ykkar gang, þeir fáu sem hér eru og aðrir sem kunna að horfa á sjónvarpsskjáinn, ég vona að þeir séu að fylgjast með þessum umræðum þó að þeir séu ekki hér. Menn verða að gera sér grein fyrir því út í hvað er verið að fara. Þetta er að mínum dómi eitthvert alvarlegasta mál sem við höfum fengist við hér á þingi í vetur. Þetta má ekki samþykkja.