Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:22:30 (6596)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á stjórn hæstv. forseta. Í dag var lagt á það ofurkapp af hálfu stjórnarliðsins að þessari umræðu yrði lokið. Ég hugsa að ég fari rétt með að það sé aðeins einn þingmaður á mælendaskrá fyrir utan þann sem stóð hér í ræðustóli. Er það ekki rétt hjá mér? ( Gripið fram í: Það eru tveir þingmenn.) Það eru tveir á mælendaskránni. Það er nú ekki meira. Þá gerist það allt í einu fyrir tilverknað ríkisstjórnarliðsins að þessari umræðu er frestað og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson beðinn um að hætta ræðu sinni og á að taka fyrir annað mál. Og þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir spyr forseta að því hver sé ástæðan, þá svarar forseti því ekki. Ég kannast ekki við þau vinnubrögð í þinginu að forsetar svari ekki því þegar þingmenn spyrja um ástæður þess að svo skyndilega er rofin umræða í þinginu og hefur sjálfsagt komið okkur öllum á óvart í þingsalnum. Ég sé að vísu og heyri að vísu að forsrh. hristir höfuðið í hliðarsal. En það má vera að hann sé sá eini sem hafi vitað þetta. Það er svo sem eftir öðru. Það er hann sem þykist vera húsbóndi hér en ekki forsetinn. Það er gott að fá það sannað með höfuðhreyfingu forsrh. úr hliðarsölum að hann telur sig vera húsbóndann í þinginu. Hann er það nú reyndar ekki. Hér er enn þá þrískipting ríkisvaldsins, löggjafarvald og framkvæmdarvald.
    Hæstv. forseti vitnaði í samkomulag við formenn þingflokka. Ég spyr hæstv. forseta: Er það samkvæmt því samkomulagi að þessi umræða er rofin nú? Og fær hv. þm. Guðrún Helgadóttir ekki svar við spurningu sinni? Ég ítreka hana. Hver er ástæðan fyrir því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er beðinn um að hætta að flytja ræðu sína að sinni og annað mál er tekið fyrir til umræðu? Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að fá upplýst hvaða ástæður liggja hér að baki.