Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:24:00 (6598)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög leitt að forsetinn skuli fara með rangt mál af forsetastóli. Það vita það allir þingmenn að það var skýr forsenda þess samkomulags og því var yfirlýst af hálfu formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar að það batt ekki hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, það vissu allir. Það vissu það allir að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur í vetur hvað eftir annað sagt að hann áskilji sér rétt til að halda sínu málfrelsi í þinginu og það hefur einnig komið fram fyrr í dag að hv. þm. Guðrún Helgadóttir áskildi sér sama rétt. Það voru þessir tveir einu þingmenn sem gerðu það formlega. Og að ætla sér að fara að níðast þannig á þessum þingmönnum með þeim hætti sem hæstv. forseti gerir hér er satt að segja afar óvenjulegt. Forsetinn fer beinlínis rangt með þegar hann er að lýsa því yfir af forsetastól að vegna þess að Ólafur Þ. Þórðarson haldi ekki eitthvert samkomulag, þá verði að fresta umræðum. Það veit allur þingheimur og það hefur legið fyrir frá upphafi að Ólafur Þ. Þórðarson áskildi sér rétt til að fá að tala hér í umræðunum eins og hann óskaði eftir. Og hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur lýst því yfir að hún ætlaði ekki að tala langt mál. En ef stjórnarliðið telur sér bært að leika sér að málum í þinginu samkvæmt dyntum hæstv. forsrh. þýðir ekki mikið fyrir hæstv. forsrh. að koma upp með stærilæti yfir því að halda skuli samkomulag og orð skuli standa. Það þýðir ekki mikið, hæstv. forsrh. Svona leikaraskapur með þingið getur ekki gengið.