Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:29:43 (6600)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Forseti sem nú er í forsetastól var ekki á fundi þingflokksformanna og forseta í dag, en ég var þar hins vegar. Ég kann ekki við það þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir hér að forsetinn sem nú er í forsetastól segi beinlínis ósatt vegna þess að það gerði hann ekki. Hann sagði satt. Það var samið um það að umræða skyldi standa í tvo klukkutíma um þetta mál, síðan yrði henni frestað og tekin fyrir önnur mál og haldið síðan áfram síðar í kvöld. Það lá alveg ljóst fyrir að hvorki hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson eða hv. þm. Guðrún Helgadóttir áttu aðild að því samkomulagi, það var alltaf vitað. Ég er satt að segja hissa á því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli segja að þetta komi öllum þingmönnum á óvart. Á ég að trúa því að þingflokksformenn hafi ekki skýrt sínum þingflokkum frá því hvað fór fram á fundinum? Ég veit raunar að þeir gerðu það.
    Svo segir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson líka að hér sé umræðu frestað fyrir tilverknað ríkisstjórnarliðsins. Þetta var samkomulag sem var gert milli hæstv. forseta Alþingis og formanna þingflokkanna, það er staðreynd málsins. Það er þess vegna líka rangt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það sé hæstv. forsrh. einn sem hafi vitað um að hér ætti að fresta umræðum. Það er sem sagt allt rangt, hvert einasta atriði af því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði.