Háskólinn á Akureyri

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:55:00 (6609)



     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð við 2. umr. þessa máls og fagna því tækifæri að fá að gera það.
    Ég vil í fyrsta lagi fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur í hv. menntmn. um afgreiðslu málsins og út af fyrir sig einnig breytingar á því. Ég held að það sé ákaflega mikilsvert og dýrmætt fyrir þá stofnun sem hér á í hlut að jafngóð samstaða geti tekist um hennar mál í meðförum Alþingis og jafnan er fyrir hvert það málefni sem í hlut á, að það getur tæplega fengið betra vegarnesti en einróma samstöðu stjórnmálaafla í landinu.
    Ég vil líka lýsa í meginatriðum stuðningi við þær breytingar sem menntmn. leggur til, eiginlega frekar þó anda þeirra kannski en beinlínis orðalag eða innihald. Ég tek það svo að um það hafi verið góð samstaða í menntmn. að hnykkja enn frekar á stöðu Háskólans á Akureyri sem sjálfstæðrar og fullburða akademíu og er það mjög vel. Hugmyndir manna hafa verið að þróast í þessum efnum alveg frá því að umræður um háskólann hófust og þá var talsvert rætt um að þetta yrði kannski á ýmsan hátt öðruvísi menntastofnun á háskólastigi en hefðbundnir háskólar ef svo má að orði komast ef það hugtak er þá yfirleitt til, en sem vinnuheiti í umræðunni má kannski bera sér það í munn. Menn töluðu um að Háskólinn á Akureyri gæti með ýmsum hætti haft sérstöðu, tengst atvinnulífinu á annan hátt, verið að einhverju leyti upp byggður meira á grundvelli hagnýts náms o.s.frv. Hirði ég ekki að rekja það allt saman, en ég leyfi mér þó að fullyrða að ekkert af slíku tagi sem rætt var átti að draga úr gildi þessarar stofnunar. Þvert á móti var þar fyrst og fremst um að ræða að menn voru og eru enn opnir fyrir því að ræða með hvaða hætti þessi stofnun geti best þjónað tilgangi sínum og fallið inn í íslenskt skólakerfi.
    En ég held að það sé alveg sérstakt fagnaðarefni að menn vilja að Háskólinn á Akureyri sé fullburða háskólastofnun sem geti staðið jafnfætis öðrum slíkum hvað snertir vísindi og rannsóknir, kennslu og alla stöðu. Hv. menntmn. hefur orðið sammála um að undirstrika það með breytingum sínum og ég fagna því og tek eindregið undir þann vilja. Að þessu lúta breytingarnar á 1. gr. laganna sem hv. formaður menntmn. og frsm. gerði grein fyrir áðan.
    Í öðru lagi er um að ræða breytingu á f-lið 2. gr. þar sem fjallað er um stjórn stofnunarinnar. Það er tillaga menntmn. að fella þar niður þá fulltrúa heimamanna eða viðkomandi kaupstaðar og landsvæðis sem þar hefðu átt samkvæmt frv. sæti. Ég get alveg fallist á þá hugsun, sem fram kemur í þessari brtt., að það sé ekki rétt að vera að gefa þessari stofnun, þó svo að hún sé staðsett á þessum stað á landinu, frekar en öðrum menntastofnunum af sambærilegum toga þann blæ að hún sé í eðli sínu eitthvað staðbundnari en aðrar, hún sé jafngildur hluti af öllu skólakerfi landsins og eigi eftir atvikum að þjóna öllum landsmönnum jafnt og það sé þess vegna ekki ástæða til, jafnvel ekki æskilegt, að gefa henni með neinum hætti þann blæ að hún sé bundin umhverfi sínu einhverjum öðrum eða fastari börnum en menntastofnanir á háskólastigi annars staðar í landinu. Það er á grundvelli þessarar hugsunar en ekki hins að maður treysti ekki fullkomlega fulltrúum þessara aðila og/eða teldi það getað þjónað ágætum tilgangi að þeir sætu þar að ég get sömuleiðis fallist á þessa brtt. Ég er út af fyrir sig sannfærður um að þegar málið verður svona flutt munu heimamenn einnig fallast á þessa breytingu eða skilja hugsunina á bak við hana.
    Þá kem ég að lokum að þeirri brtt. sem er nr. 3 á þskj. 918 og snýr að því að breyta aðeins orðalaginu á þeirri málsgrein sem lýtur að möguleikum menntmrn. til að samþykkja stofnun fleiri námsdeilda við skólann og skiptingu deilda í námsbrautir o.s.frv. Menntmn. leggur til að þar komi orðið ,,heimilar`` í staðinn fyrir ,,getur samþykkt`` og setningin verður þá á þessa leið, með leyfi forseta: ,,Menntmrn. heimilar stofnun fleiri deilda og skiptingu deilda í námsbrautir`` o.s.frv.
    Sömuleiðis vil ég gjarnan leggja nokkra merkingu í þessa orðalagsbreytingu sem í sjálfu sér er ekki eiginleg efnisbreyting því að vald menntmrn. tekur engum eðlilsbreytingum við þessa orðalagsbreytingu. Hér er fyrst og fremst um áherslu að ræða og það má segja að hið fyrra orðalagið sem í frv. er væri kannski nokkuð varfærnislegra eða gæfi fremur þann blæ að þetta væri möguleiki, þetta flokkaðist meira sem möguleiki en beinlínis regla sem gengið væri út frá að gæti verið virk. Svo sannarlega skal ég taka undir að þetta sé heppilegra að orða svona, enda kem ég þá að því sem ég ætlaði aðallega að fjalla hér um og gerir það að verkum að ég fór í ræðustólinn og það er sú umræða sem farið hefur fram um stofnun kennaradeildar við skólann. Ég fagna því sérstaklega að í nál. menntmn. á þskj. 917 er vikið að þessu og þar liggur fyrir samstaða nefndarinnar um að stofnuð verði sem fyrst kennaradeild við háskólann. Ég tel mjög dýrmætt vegarnesti fyrir skólann að þannig liggi fyrir yfirlýstur stuðningur menntmrn. Alþingis við því að kennaranámið hefjist við skólann. Ég hefði getað hugsað mér að þarna hefði verið gengið enn lengra og það er sjálfsagt svo um fleiri og það yrði beinlínis sett inn í 9. gr. að þarna skuli starfa kennaradeild. E.t.v. hefðu þá þurft að fylgja með einhver bráðabirgðaákvæði með hliðsjón af því að hún er ekki enn inni á fjárlögum, en það er þó kannski þegar betur er að gáð eftir atvikum ekki endilega sterkari staða fyrir skólann til framtíðar litið og þá er ég að vísa til þess að að sjálfsögðu búumst við því að í kjölfar kennaradeildar geti á síðari tímum enn bæst eitthvað við verkefnaskrá Háskólans á Akureyri og þá væri þegar fyrir fordæmi um það að menntmrn. án lagabreytingar heimilaði fleiri deildir en taldar eru upp í 9. gr. sjálfri. Ég get þess vegna prýðilega unað þessari afgreiðslu og tel hana verulegan áfanga í málinu. Ég vil leyfa mér að segja það hér, herra forseti, og undirstrika að ég tel þetta verulegan áfanga í málinu á þeirri leið að upp verði tekið kennaranám við Háskólann á Akureyri.
    Þess vegna langar mig við þetta tækifæri að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann hafi einhverjar fréttir að færa af þessum undirbúningi. Mig minnir reyndar að ég hafi gert það fyrr í vetur og fengið ágæt svör en ekki þau að málið væri komið ákvörðunarstig. Nú háttar auðvitað þannig til að það er síst verra að menn fái góðan aðdraganda að því að hefja slíka starfsemi og undirbúningstíminn er jafnan nokkur. Mín spurning er því sú til hæstv. menntmrh.: Er þess að vænta að hann treysti sér til á næstunni að heimila undirbúning að kennaranámi við Háskólann á Akureyri og hvenær gæti menntmrh. hugsað sér að slíkt nám færi af stað? Ég vek athygli á því að þróun Háskólans á Akureyri hefur gjarnan farið fram í þannig áföngum að velviljaðir menntamálaráðherrar, sem setið hafa á undanförnum árum, sá sem nú situr, sá sem var næstur á undan honum og sá sem var enn þar á undan, hafa heimilað háskólanum að hefja undirbúning að námi sem síðan hefur komið inn við umfjöllun Alþingis hvað fjárveitingar snertir. Þetta er að sjálfsögðu fullkomlega eðlilegur og rökréttur framgangsmáti og er í valdi menntmrh. eins og svo fjölmargt annað sem lýtur að uppbyggingu nauðsynlegs námsframboðs í landinu. Einhverjir hafa tilhneigingu eins og maður verður stundum var við til að stilla þessu öðruvísi upp, að það sé í gegnum hina beinhörðu ákvörðun um fjárveitingu sem menntapólitískar ákvarðanir af þessu tagi séu teknar. En að mínu mati er það alls ekki svo. Þegar einu sinni hefur verið heimiluð starfræksla menntastofnunar þá eru hinar fagpólitísku ákvarðanir um uppbyggingu hennar og starfrækslu á þeim grunni teknar og skulu vera það og síðan kemur það til fjárveitingavaldsins að leggja til fé. Það liggur í anda þeirra laga sem þessar menntastofnanir starfa eftir að umfang starfseminnar ræðst að sjálfsögðu af áhuga á því námi sem þar er í framboði og aðsókn í það. Og svo lengi sem við lokum ekki okkar skólum, takmörkum ekki að þeim aðganginn hlýtur það að vera svo að fjárveitingarnar verða að laga sig að þeim veruleika sem birtist okkur í starfrækslu skólakerfisins í landinu. Og þó að okkur sé það öllum ljóst með þessu að það er ekki svigrúm til þess innan þegar samþykktra fjárlaga að kostnaður svo að neinu nemi falli til á þessu ári vegna kennaranáms, þá er ekkert sem mælir gegn því að heimilað verði nú að hefja undirbúning að því að taka það upp. Þannig var til að mynda hleypt af stokkunum námi á sjávarútvegsbraut við Háskólann á Akureyri að fyrst var gefin út af hálfu menntmrh. ákvörðun um að heimila það nám og hefja undirbúning að upptöku þess og síðan komu til fjárveitingar þegar af sjálfri starfseminni varð.
    Mér er reyndar kunnugt um að slíkur er áhugi manna á þessu svæði að af þessu verði að þar væru menn jafnvel tilbúnir til þess að leggja nokkuð á sig til að þessi undirbúningur mætti fara af stað og e.t.v. bera einhvern kostnað sem af því kynni að hljótast þangað til fjárveitingar koma fram á fjárlögum ef það mætti verða til að greiða fyrir málinu. En í öllu falli væri það geysilega dýrmætt ef hæstv. menntmrh. gæti upplýst okkur um það hvort á dagskrá er hjá honum á næstunni að taka þá menntapólitísku ákvörðun sem þarna liggur fyrir að taka. Ég leyfi mér aðeins að stríða hæstv. menntmrh. og minna hann á að það er kannski komin röðin einmitt að honum núna að taka tímamótaákvörðun um frekari uppbyggingu og þróun í Háskólanum á Akureyri. Hann er að vísu að taka ágætlega á þeim málum með afgreiðslu þessara laga, það skal ég fúslega viðurkenna og þakka honum um leið, en til þess að hann eignist sitt flagg í þessri sögu væri orðið alveg tímabært held ég að hann tæki t.d. ákvörðun um að leyfa háskólanum að hefja undirbúning að þessu kennaranámi.
    Ég er svo sannfærður um það að ég held að ég sleppi því að rökstyðja það að það er skynsamleg, jákvæð og mjög eðlileg ákvörðun að heimila upptöku þessa náms. Ég held að allar aðstæður í skólamálum í landinu færi okkur heim sanninn um að það væri mjög æskileg viðbót við sjálfa undirstöðu skólakerfisins að kennaranám kæmist á norðan heiða. Það er margt sem bendir til þess að leið kennara sem þar mundu menntast lægi að breyttu breytanda kannski fremur en annarra út í skólaumdæmin á landsbyggðinni og það væri þá framþróun í okkar skólamálum sem við þurfum á að halda með hliðsjón af því að enn vantar mikið á að við mönnum allar skólastöður með fólki með tilskilda menntun eða æskilegustu menntun og reynslu eða próf í þeim efnum.
    Það er einnig ástæða til þess að lokum að benda á það, af því að það eru dálítið dimmir dagar hér á Alþingi nú um stundir finnst sumum og vorið kalt og ýmislegt sem er heldur leiðinlegt, að hér er þó á ferðinni svolítill sólargeisli, a.m.k. í hugum okkar margra. Hér er nefnilega verið að taka framfaraskref í skólamálum og menntamálum í landinu. Hér er verið að sækja fram, hér er verið að byggja upp, hér er verið að undirbyggja betri og bjartari framtíð. Það held ég að við getum öll verið sammála um og þá er ástæða til að fagna. Ég held að hér sé á ferðinni verulega stórt framfaramál í mörgu tilliti. Þar ber fyrst að nefna þá viðbót við okkar skólakerfi sem hér er á dagskrá og þann menntapólitíska ávinning sem af því er að upp rísi myndarleg stofnun á háskólastigi í höfuðstað Norðurlands.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að nefna byggðapólitískt samhengi þessa máls. Það er mjög stórt í hugum margra og er mönnum nánast eins og fáni fyrir því að það er ýmislegt hægt að gera í þessum efnum. Draumar geta ræst og orðið að veruleika, einnig í baráttu manna fyrir meira jafnvægi í byggð landsins og meiri dreifingu þeirra opinberu stofnana sem hafa haft eins og kunnugt er ríka tilhneigingu til að þjappast saman á einum stað í landinu.
    Í þriðja lagi, og það er kannski ekki síst, hlýt ég að nefna gildi þessa starfs fyrir atvinnuvegina. Fjölmiðlamenn norðan heiða unnu ágætan sjónvarpsþátt um þessa starfsemi og þar voru m.a. í viðtöl við nokkra af forustumönnum í atvinnulífinu sem nefndu margir og röktu væntingar sínar í sambandi við starfsemi Háskólans á Akureyri og þá ekki síst sjávarútvegsbrautarinnar þar. Ég hef reyndar áður úr þessum ræðustóli talað um það mál m.a. í tengslum við litla þáltill. sem liggur fyrir þingnefnd og tengist nokkuð stöðu Háskólans á Akureyri, fræðslu og rannsóknum á þessu svæði og á landinu í heild í raun og veru, þ.e. á sviði sjávarútvegsins. En mér er enginn efi á því að þarna geta verið að gerast og eru að gerast mjög þýðingarmiklir hlutir fyrir okkar atvinnumál. Það var svo löngu, löngu tímabært að við Íslendingar færum að sinna betur menntamálum á sviði sjávarútvegs að það eitt getur orðið manni eiginlega undrunarefni í þessu sambandi að það skyldi ekki komið á fyrir svona tveimur til fjórum áratugum fullburðugt háskólanám á sviði sjávarútvegsfræða. En betra er seint en aldrei og við verðum öll að vona og hjálpast við að styðja þannig að Háskólanum á Akureyri að sjávarútvegsbrautin þar geti staðið undir þeim væntingum sem við hana eru bundnar ekki síst frá atvinnugreininni sjálfri, sjávarútveginum.
    Herra forseti. Ég held að ég hafi þessa ræðu ekki lengri. Ég held að það sé engin þörf á því. Ég hef komið því frá mér sem mér er efst í huga í sambandi við þetta mál. Ef ég færi að rekja ýmislegt annað sem kemur í huga manns og væri gaman að fjalla um, svo sem þá sögu sem hv. 4. þm. Austurl. rifjaði lítillega upp og er mér býsna hugleikin, sögu uppbyggingar æðri menntunar norðan heiða, þá gæti ræðan lengst og þær eru ekki vinsælar eins og kunnugt er, a.m.k. ekki af sumum fjarstöddum, löngu ræðurnar þannig að ég sleppi því, ætla ekki að láta þetta góða mál gjalda þess að einhverjum kunni að finnast langar ræður undirritaðs leiðinlegar.
    Ég tók stúdentspróf frá þeirri ágætu stofnun Menntaskólanum á Akureyri sem var lengi tortryggður mjög og dregið í efa að hefði hæfileika til að útskrifa stúdenta. Sú mikla áraun var lögð á norðanmenn um tíma að nema í Menntaskólanum á Akureyri en fara síðan suður til að láta Reykvíkinga prófa sig því slíkt ábyrgðarstarf var ekki talið á færi manna norðan Holtavörðuheiðar að láta nemendur þreyta stúdentspróf á þeim árum. En það er löngu breytt og nú stendur allt Alþingi saman um að þróa áfram þessa ágætu stofnun, Háskólann á Akureyri.
    Ég endurtek þakkir mínar til menntmn. og fögnuð minn yfir því að hún skuli hafa náð svona vel saman um þetta ágæta mál.