Háskólinn á Akureyri

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 22:23:00 (6611)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom, að ég var fjarverandi þegar þetta mál var afgreitt úr nefnd. Ég var við hluta af þeirri umræðu aftur á móti og vil að það komi fram að ég er hlynntur þeirri afgreiðslu sem málið fékk.
    Ég vil einnig að það komi fram að ég var ekki fjarri þegar samþykkt var á sínum tíma að stofna Háskólann á Akureyri. Menntaskólinn er að sjálflöngu fyrir þann tíma sem ég var fær um að taka þátt í umræðu. En hins vegar var það svo að einn af hans afburða námsmönnum var kennari minn í barnæsku, séra Jóhannes Pálmason.
    En það sem ég vildi leggja á áherslu í þessari umræðu er að við megum aldrei etja saman í orðum Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Þetta þurfa að vera stofnanir sem vaxa í þessu landi og þjóðin sem heild þarf að styðja. Háskóli Íslands á mikla og glæsta sögu. Og eitt af því sem gerði sögu hans glæsta voru þeir framsýnu menn sem sáu að það varð að finna sjálfstæðan tekjustofn fyrir Háskóla Íslands. Það var mikil framsýni og mikið gæfuspor. Því segi ég þetta að ég vil koma því á framfæri við þá mætu menn sem stjórna Háskólanum á Akureyri að við þingmenn vildum gjarnan geta fengið frá þeim hugmyndir um eitthvað sem gæti orðið þeim að föstum tekjustofni.
    Ég vil ljúka þessu með því að minna á að í dómkirkjunni á Hólum var mér af sóknarpresti úr Skagafirði, sem rakti þar sögu mála, bent á þá staðreynd að því kröfðust Norðlendingar biskupsseturs norðan heiða að þeir vildu ekki missa tíundarskattinn suður yfir heiðar. Og vissulega hefði Norðurland orðið annað ef Hólastaður hefði ekki komið til. Þess vegna undirstrika ég að það verður að finna tekjustofn fyrir Háskólann á Akureyri.