Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 22:32:44 (6614)

     Ólafur Þ. Þórðarson (frh.) :
    Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég vakti á því athygli að hæstv. ráðherra hefði viljað bjarga sjóðnum en gleymt því að sjóðurinn varð til vegna námsmannanna. En kjarni málsins er sá að þessi sjóður er svo sterkur að hann þolir þá dýfu sem orðið hefur vegna þeirrar efnahagslægðar sem hér er. Hitt er svo ærið umhugsunarefni að sú ákvörðun sem tekin hefur verið og er langalvarlegust varðandi þennan sjóð er ákvörðunin um að námslánin skuli öll lúta sömu leikreglum í útgreiðslu og var gagnvart fyrsta árs nemum, þ.e. menn þurfi stöðugt að vera að sanna að þeir séu í námi í alvöru.
    Mér er ljóst að það getur stundum liðið þó nokkur tími frá því að menn hafa lokið prófi og þar til þeir fá skriflegar námsniðurstöður í hendur. Það skyldi enginn ætla sem hér er að þetta mál hafi ekki verið rætt á sínum tíma þegar núgildandi lög voru tekin fyrir. Þá horfðum við til ýmissa landa og hugleiddum okkar stöðu. Sérstaða íslenskra námsmanna var sú að mjög stór hluti þeirra var við nám erlendis. Samanburður t.d. við Bretland, sem notar það kerfi sem hér er verið að tala um, er að því leyti út í hött að breskir námsmenn stunda langflestir nám í Bretlandi. Þeir þurfa ekki annað en kaupa sér járnbrautarmiða til þess að komast heim. Þeir geta þess vegna labbað yfir götuna og rætt við þá sem þeir þurfa að fá lánið hjá.
    Hér er alvaran sú að nememdur sem komnir eru til náms úti í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi og víðar eiga vissulega stuðningsmenn sem hafa skrifað upp á námslánsskuldbindingar, en það er ekki víst að þeir hafi allir talsmann sem er reiðubúinn að standa í því að fara og ræða við einhvern starfsmann um það hvort þeim verður nú lánað núna eða ekki. Alvara þessa máls er svo mikil að ég hefði ekki trúað því að óreyndu að menn bitu sig svo fasta í það sem hér er verið að gera. Hin hliðin er fjárhagslegs eðlis, hvað þetta muni kosta. Ég ætla ekki að fara að þreyta mig á þeirri umræðu.
    Það kom fram í menntmn. í dag að það eru byrjuð að fara boð á milli framkvæmdastjóra lánasjóðsins og bankanna um þessi mál. Viðræður í þeirri merkingu að menn setjist niður sitt hvorum megin við borð og ræði saman, slíkar eiginlegar viðræður hafa ekki farið fram. Hins vegar kom fram hjá framkvæmdastjóra lánasjóðsins að hann er bjartsýnn á það, hann trúir ekki öðru, eins og hann orðaði það, en að bankarnir taki vel í þessa málaleitan vegna þess að hann sagði með réttu að námsmenn væru skilvísir og þetta væri fólk sem trúlega ætti eftir að standa sig vel í lífsbaráttunni. En réttlætir það, þó menn vilji trúa þessu, að tefla svo djarft eins og verið er að gera, að segja: Ef eitthvað bjátar á einhvern tíma í fimm ára námi dugir ekkert annað en segja: Stopp. Hitt er svo umhugsunarefni og væri nú rétt að þingflokksformaður Alþfl. svaraði: Hvernig á meta hvernig mönnum miðar við doktorsritgerð? Hvernig á að meta það? Hvernig á að skila slíkum námsárangri heim? Á að gera grein fyrir því hvað menn séu búnir að eyða mörgum klukkustundum í að hugsa um málið, hversu mikið af minnisblöðum liggi fyrir? Hvernig svara menn slíku? Það er einfaldlega ekki hægt.
    Okkur er borið á brýn mikið ábyrgðarleysi sem viljum viðhalda því að lánin séu greidd fyrir fram eins og gert er. Nú eru laun ríkisstarfsmanna greidd fyrir fram og það er enginn sakaður um ábyrgðarleysi vegna þess. Það vill svo til að Sjálfstfl. hefur eins og margir aðrir flokkar þrifist af ýmsum skáldum þessarar þjóðar og mér dettur ekki í hug að eigna Sjálfstfl. einhverja sérstaka hrifningu þeirra skálda sem ég ætla að vitna í. Ég játa það hér og nú að ég hreifst af þeim skáldum.
    Annar sagði: Hverfult að börn þín skuldir sínar greiði. Var það ekki skáldið sem orti um Austurstræti?
    Hitt skáldið sagði:
        Sú kynlega vissa hjá klerki fengin,
        að kúgildin séu til þurrðar gengin.
        Kirkja fyrirfinnst engin.
    Og hann lagði á sig að yrkja heila drápu um sóknarprestinn sem lét brenna kirkjuna til þess að sóknarbörnin héldu á sér hita og taldi yrkisefnið verðugt.
    Ég get vissulega sagt sem svo: Þessi skáld hafa haft svo mótandi áhrif á mig að ég hafna í þessum ábyrgðarlausa flokki þeirra manna sem telja að það eigi að halda áfram að greiða lánin fyrir fram. Allar hugmyndirnar um að það sé um stórkostlega misnotkun að ræða gef ég lítið fyrir. Það er hægt að taka á því máli ef menn vilja gefa stórkostlega rangt upp sínar tekjur. Það er sagt að refsingin sé 5%. Það er hægt að auka hana ef menn telja að slíkur blekkingarleikur sé til staðar. Það er ekkert mál að taka á því.
    En það er ekki rökrétt með nokkru móti að telja að það geti gengið upp að senda menn til náms, það er stór ákvörðun að fara út í heim til að stunda nám, og segja að það eigi að ráðast eftir viðtali við mann, kannski ágætan mann niðri í banka, ekki eftir neinni reglu, eigi að ráðast eftir viðtalið við ákveðinn mann hvort námsmaðurinn fái að halda áfram námi eða ekki. Við höfum ekki efni á þessari menntastefnu. Ég er ekki viss um að ráðherrar vors lands þyldu þá skoðun botn hvort þeir hafi alltaf siglt fullan byr eftir þeirri braut sem þeir ætluðu að fara. Ég er ekki að segja þeim þetta til hnjóðs. Ég held bara að þar séu mannlegir menn eins og aðrir. En hitt fannst mér alveg sérstakt og skildi það nánast ekki strax hvað gat legið á bak við hjá hæstv. menntmrh. þegar hann gaf yfirlýsinguna um það að reglurnar um námslán ættu ekki að hvetja til barneigna. Ég veit ekki hvort hann var að skjóta á samráðherra sinn í ríkisstjórninni. En þetta mál er vissulega umhugsunarefni.
    Ég ætla að nefna tvær þjóðir sem eru komnar svo langt niður í barneignum að þar mun innfæddum fækka á næstu árum og aðrir kynstofnar taka við. Um það má deila hvort þeir eru betri eða verri. Ég ætla ekki að leggja dóm á það. Þetta eru Danmörk og Þýskaland. Svo neðarlega eru barneignirnar komnar. Og ég er sammála því sem framkvæmdastjóri lánasjóðsins sagði. Það er mannvænlegt fólk sem er að stunda háskólanám. Það er líka mannvænlegt fólk sem ekki er að stunda háskólanám. En hvers vegna skyldi sérstaklega nú vera gefin út sú lína að það þurfi sérstaklega að passa upp á að reglurnar hvetji ekki til barneigna? Er það æskilegt markmið að þessi hópur þjóðfélagsins eignist færri börn en aðrir? Hugsi nú hver fyrir sig.
    Ég fékk ádrepu fyrir það hjá hæstv. menntmrh., snarpa, og kannski hef ég verið of hvass í orðum, að ég óttast það, og lái mér hver sem vill, að í sumum tilfellum eigi þessi breyting eftir að kosta sjálfsvíg. Ég ætla ekki að lesa upp þau gögn sem liggja fyrir. En ég vil hvetja menn til að lesa það sem landlæknir segir í umsögn sinni til allshn. og einnig frá rannsókninni sem framkvæmd var fyrir um einni öld þar sem farið er yfir þessi mál. Einmanaleiki og féleysi eru ástæður sem enginn skyldi vanmeta þegar þetta er skoðað og sá sem er einn, e.t.v. í erlendri stórborg, og sér enga lausn sinna mála þarf mikið

þrek til þess að halda fullkomlega andlegum velli ef hann horfir á það kannski að þriggja eða fjögurra ára nám er að fara til einskis.
    Ég hefði talið það betra ef hæstv. menntmrh. hefði íhugað hvort ekki hefði verið rétt að víkja frá þeirri reglu að orð skuli standa og gefið eftir á þessu sviði þannig að í haust yrðu greidd út námslán þó að heimildir séu ekki nema fyrir 2 / 3 miðað við það sem væri ef þau væru greidd út að fullu. Mér er ljóst að svo er ekki. Ég verð að segja að ég mat það mikils við einn af fyrrv. forstumönnum Sjálfstfl. að hann var maður til þess að segja það seinna sínum vinum að hann hefði alltaf séð eftir því að greiða atkvæði gegn ákveðnum lögum sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga. Þessi lög voru vökulögin. Og mér er sagt, ég trúi því í það minnsta, að það sé rétt eftir haft eftir Ólafi Thors.
    Ég vona að Sjálfstfl. eigi eftir að endurskoða sína stefnu í þessu máli og ég ítreka að það má vera mikið og merkilegt sem Alþfl. hefur fengið í staðinn fyrir að samþykkja þessa breytingu á lánasjóðnum. Látum aðrar liggja milli hluta, ég er ekki stuðningsmaður þeirra, en ég tel að þessi eina breyting sé alvarlegri en nokkuð annað sem verið er að samþykkja breytingu á.