Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 22:49:00 (6615)



     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að þakka hina nýju samninga sem hafa leyft mér málfrelsi hér á hinu háa Alþingi. Af þessari sérstöku vinsemd forsetanna skal ég lofa hæstv. forseta að ég skal ekki verða mjög langorð, enda hef ég þegar rætt allítarlega um þetta mál. Og ég legg það yfirleitt ekki í vana minn að segja oft sömu hlutina, reyni að komast hjá því a.m.k., nema þegar alveg er ljóst að engin önnur leið er til að fá fólk til að skilja það sem um er að ræða.
    Þetta mál hefur nú verið rætt eins og mörg önnur hér á hinu háa Alþingi sem fjárlagadálkur. Þess vegna væri ekki úr vegi að líta á hvernig þetta mál snýr fyrir venjulegu fólki. Til mín hafa komið tveir aðilar. Annar er ekkja sem vinnur verksmiðjuvinnu og vinnur við hreingerningar á kvöldin og hefur alið upp tvö börn sem svo vill til að hafa getað stundað nám og hafa bæði lokið menntaskólanámi. Þessi kona hefur sett allan metnað sinn í það að eignast íbúð og hún er þegar búin að fá alla þá ábyrgð vegna þessarar íbúðar sem hún getur hugsanlega vænst hjá nánustu ættingjum og vinum. Hún kom til mín og sagði: Hvað á ég nú að gera? Heldurðu að ég fái nokkurs staðar lán? Tekur nokkur mark á mér sem ábyrgðarmanni?
    Hitt dæmið var gamall maður, afi, sem hefur alið upp barnabarn sitt ásamt konu sinni. Þau hafa aldrei eignast fasteign. Þau eiga þetta fósturbarn sitt, þetta afabarn, sem er í doktorsnámi erlendis og þessi gamli maður staulast niður í Alþingi til að spyrja mig: Hvernig á ég að leysa þetta mál? Hvern get ég beðið um ábyrgð?
    Þetta er raunveruleiki þess máls sem hér er á ferðinni því að það er gersamlega útilokað fyrir nokkurn banka í landinu að bjóða námsmönnum neina aðra kosti en öðru fólki og ég er viss um að hv. 5. þm. Suðurl. og formaður bankaráðs Búnaðarbankans hlýtur að viðurkenna það. Sparifjáreigendur hafa trúað bönkum fyrir fé sínu og það er skylda hvers banka að ávaxta það eins vel og hann getur enda hafa engir samningar verið gerðir við neina banka og ég harma að hæstv. menntmrh. skuli hafa vogað sér hér í dag að halda því fram að það séu ósannindi.
    Fyrir liggur eitt undarlegt tilskrif frá Landsbankanum um að bankinn skuli taka vinsamlega í viðskipti við námsmenn. Það hafa engir samningar verið gerðir og það sem meira er, hæstv. forseti, fyrir því er augljós ástæða. Það á ekki að gera neina samninga og hefur aldrei neinum manni dottið það í hug vegna þess, og þetta bið ég hið háa Alþingi og þjóðina alla að hlusta á, að það á að koma á í byrjun tvöföldu kerfi, samtengja bankana og Lánasjóð ísl. námsmanna og þá líður ekki á löngu áður en hvert mannsbarn sér fáránleikann í þessu og menn segja: Bankarnir eru komnir með þessi viðskipti hvort sem er. Lánasjóður ísl. námsmanna er hreinn óþarfi. Við leggjum hann að sjálfsögu niður. Það er þetta sem hæstv. menntmrh. er að gera og það er þetta sem enginn hefur sagt enn þá. Það er þetta sem verið er að gera og ég bið menn að taka eftir þessu. Það er verið að stíga fyrsta skrefið til að leggja Lánasjóð ísl. námsmanna niður.
    Aðeins að lokum, hæstv. forseti, ég lofaði að vera mjög stuttorð. Ég bað hæstv. félmrh. að hlýða á mál mitt stundarkorn og þakka henni fyrir að hún er stödd hér. Ég veit að hún hefur verið í miklum önnum. Hæstv. félmrh., sem nú hefur verið félmrh. í fimm ár, hélt hér magnaða ræðu í eldhúsdagsumræðum á mánudagskvöld sem margir dáðust að. Ég var ein af þeim þangað til ég fór að hugsa: Þetta er gott og blessað. Þetta eru allt saman hárréttar skoðanir. En sérkennilegt er að geta verið með þessar skoðanir en sitja sem fastast í því samkvæmi sem hún er nú í.
    Hún gerði tekjuskiptinguna í samfélaginu að megininntaki ræðu sinnar og sagði réttilega að bilið milli ríkra og fátækra væri sífellt að aukast. Ég vil minna á að arðurinn skattfrjálsi sem greiddur var hluthöfum í Sameinuðum verktökum var nokkurn veginn á einu ári það sem hefði verið þægilegt að hafa í Lánasjóði ísl. námsmanna, þá hefði vandinn svo sem ekki verið neinn. En það er önnur saga. Ég ætla þess vegna að segja hæstv. félmrh. hvað ungar konur í dag segja um það sem þessi ríkisstjórn er að gera til að reyna að jafna tekjumuninn í þjóðfélaginu. Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við unga konu, reyndar margar ungar konur, m.a. Guðnýju Björku Viðarsdóttur og hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Ég fylltist mikilli reiði þegar ég heyrði menntmrh. lýsa því yfir eftir 2. umr. um frv. að bæði þessi atriði hefðu gengið í gegn, þ.e. vaxtagreiðslurnar og lánin eftir á.`` --- Einkum ákvæðið um eftirágreiðslur og vexti af lánum, segir hún. Svo segir blaðamaðurinn: ,,Mánaðarlegar greiðslur hennar frá lánasjóðnum eru 47 þús. kr. en af því greiðir hún 20 þús. kr. í húsaleigu. ,,Auðvitað gengur illa``, segir Guðný, ,,að lifa af þessum 27 þús. kr. Samt er ég ekki endilega að segja að það eigi að hækka lánin. Mér finnst alveg eins koma til greina að hækka tekjutillitið.`` En þannig endar greinin: ,,Guðný segist stefna að því að ljúka námi vegna þess að hún sé byrjuð í því en ekki væri víst að hún hefði hafið nám núna ef hún hefði staðið á þeim tímamótum nú.``
    Viðtal er við aðra unga konu, Unni Karlsdóttur sagnfræðinema, og blaðamaður hefur eftir henni: ,,Hún segir að frumvarpið skerði jafnrétti fólks til náms og bendir á að konur komi verr út úr breytingunni en karlar. Þær eigi erfitt með að skila fullum námsárangri með barnauppeldi og eigi erfiðara með að endurgreiða lánin því þær hafni yfirleitt í verr launaðri störfum en karlar.`` Orðrétt er haft eftir henni: ,,Þannig mundi ég halda að frv. væri stórt skref aftur á bak í kvennabaráttunni.``
    ,,Unnur benti einnig á``, segir hér, ,,að erfiðara væri um vik fyrir þá námsmenn sem ættu foreldra úti á landi því að þeir gætu ekki sparað með því að flytja til þeirra.`` Og hún segir einnig að frv. leiði til þess að þeir einir fari í nám sem hafi efni á því. Sjóðurinn verði lánasjóður efnamanna fremur en efnalítilla.
    Ég hygg að þessi ummæli séu alvarlegt umhugsunarefni fyrir hæstv. félmrh. Ég trúi því ekki augnablik að hún vilji vinna að þessari þróun í samfélagi okkar og henni vil ég því segja þetta vegna þess að við höfum oft átt ágætt samstarf um góð þingmál á meðan það var talið eðlilegt að menn úr ólíkum flokkum gætu unnið að málum sem til framfara væru í þjóðfélaginu, sú tíð er nú liðin að mestu: Hrædd er ég um að ræða hennar á mánudagskvöldið verði lítils metin ef hún ætlar svo á morgun ásamt flokki sínum, Jafnaðarmannaflokki Íslands, að greiða þessu frv. atkvæði sitt eins og það er nú.
    Hæstv. forseti. Ég skal standa við loforð mitt og ljúka máli mínu. En ég vil ítreka það, ef það skyldi hafa farið fram hjá nokkrum, að þetta er fyrsta skrefið til að leggja Lánasjóð ísl. námsmanna niður og það er verið að blekkja fólk. Það verður ekki langt þangað til öll viðskipti námsmanna verða að fara í gegnum bankakerfið og menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé best að leggja Lánasjóð ísl. námsmanna niður. Og ég vil spyrja alla þá sem mál mitt heyra: Greiddi einhver þessu fólki atkvæði sitt í síðustu kosningum til þessara verka?