Skattskylda innlánsstofnana

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 23:56:13 (6619)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Það er orðið áliðið kvölds og hér er orðið harla fátt um þingmenn og ráðherra. Ég sé t.d. engan alþýðuflokksmann þessa stundina, en þeir hafa átt afar bágt í dag. --- Já, þarna birtist einn, annar og sá þriðji. Um leið og maður nefnir það spretta þeir fram úr skúmaskotunum, þeir fela sig meðan umræður standa yfir. (Gripið fram í.) Ég er kona jöfnuðar og jafnréttis eins og þingmaðurinn, hinn 17. í Reykjavík, ætti að vita. (Gripið fram í.) Jú, jú, þetta er rétt. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. að leyfa ræðumanni að hefja sitt mál.)
    Það sem ég ætlaði að segja í upphafi máls míns er það að ég vona að sá sem nú situr á forsetastóli geri sér grein fyrir því að það mál sem við erum að byrja að ræða er stórt mál og alvarlegt. Því ætti hann að gera sér grein fyrir sem reyndur sveitarstjórnarmaður að hér er ýmislegt öðruvísi en sýnist í fyrstu og ég tel nauðsynlegt til þess að þess umræða haldi áfram að hér verði hæstv. forsrh. viðstaddur vegna þeirra áhrifa sem þetta frv., ef að lögum verður, mun hafa og ég vil eiga við hann orðastað um áhrif frv. á þá kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir.
    Þá tel ég einnig nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. verði kallaður hingað, svo og landbrh. sem ég veit að er í húsinu og sjútvrh. Þetta skýrist af því, ég verð að skýra þetta fyrir hv. 17. þm. Reykv., að hér er um það að ræða að þrír af þeim sjóðum sem á að fara að skattleggja gera mjög sterkar athugasemdir við þessa skattlagningu og ég tel nauðsynlegt að þeir ráðherrar, sem þessir sjóðir heyra undir, verði viðstaddir umræðuna. ( Forseti: Forseti vill trufla hv. þm. og geta þess að það hafði verið gert ráð fyrir því að fresta þessari umræðu að lokinni ræðu hv. 18. þm. Reykv., en vegna óska hennar um að hæstv. ráðherrar verði hér við umræðu telur forseti einsýnt að það sé þá best að fresta umræðunni áður en hv. þm. heldur lengra í sinni ræðu ef hv. þm. sættir sig við þá niðurstöðu.) Já, ég geri það.