Framhald þingfundar

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 01:01:59 (6625)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Átti virkilega að skilja orð forseta á þann veg að hann hyggist ljúka í nótt 2. umr. um Skipaútgerð ríkisins og taka síðan fyrir nýtt mál? Er það virkilega rétt skilið? --- Ég tek eftir því að forseti vill ekki svara. Það væri gagnlegt að maður fengi svar. Sumir forsetar hafa þá venju að veita manni svar um leið og maður spyr. Er það venja sem núv. forseti vill ekki fylgja? ( Forseti: Ræðumaður lýkur máli sínu.) Nei, ýmsir forsetar gera það nú þó að menn séu í ræðustól. ( Forseti: Ég ætlaði að leyfa ræðumanni að ljúka máli sínu.) Já. Ekki er nú verið að auðvelda afgreiðslu mála af hálfu núv. forseta.
    Ég vil eindregið mótmæla því að forseti haldi þannig áfram að hann ætli sér að láta fara hér fram, þegar þingfundir hafa staðið í 14 klukkustundir, umræðu um Skipaútgerð ríkisins. Ef það er virkilega ætlunin, þá eru ýmsir ráðherrar sem við viljum fá til umræðunnar og þá er eins gott að þeir verði sóttir áður en umræðan heldur áfram. Ég óska eftir því að fá svör við því hvort virðulegi forseti er ekki reiðubúinn að slíta fundi þegar búið er að mæla fyrir nál. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það þó að menn mæli fyrir nál., en ef það er virkilega ætlunin að halda áfram fullburðugri umræðu um málið er nauðsynlegt að við fáum hingað til fundar nokkra ráðherra sem við þurfum að tala við. Við munum ekki una öðru a.m.k.
    Ég vil almennt segja það við þann forseta sem í stólnum situr að reynsla manna undanfarin ár og áratugi og almenn skynsemi mælir ekki með svona vinnubrögðum. Það verður ekki til að greiða fyrir umfjöllun um önnur mál að gera þetta með þessum hætti.