Framhald þingfundar

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 01:04:50 (6627)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Forseta hlýtur að vera kunnugt um það að ég tók þátt í umræðum

við framlagningu þessa frv. og hef ýmislegt við það að athuga. Og ég mótmæli því harðlega ef hér stendur til að mæla fyrir nál. en hafa það svo eins og um fjölmörg mál áður í kvöld að fresta þá umræðum. Ég mun þá hefja hér umræðu og ég mun tala allgóða stund um þetta mál og ég mun að sjálfsögðu krefjast þess að hæstv. fjmrh. verði á staðnum. Það er auðvitað ekki nokkur einasta hemja að annað eins og þetta eigi sér stað. Ég vil benda á að það er að vísu eitt nál., en það er brtt. og er 1. flm. þar hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og þrír aðrir þingmenn. Væntanlega verður talað fyrir þeim brtt. líka. Ég hlýt að áskilja mér allan rétt til að ræða bæði brtt. og málið í heild svo að ég vil spyrja hæstv. forseta hvort það standi nú til að þvinga fram að mælt verði fyrir nál. og umræðum síðan frestað rétt eins og átt hefur sér stað með fleiri mál hér í kvöld. Það er alveg fráleitt að ræða mál eins og það að leggja niður Skipaútgerð ríkisins án þess að hér sé viðstaddur fjmrh. þjóðarinnar. Það nær ekki nokkurri einustu átt. Ég bið um skýringar á þessu. Ég ætlast til þess að þegar ég spyr hæstv. forseta einhvers sé mér svarað og það á við auðvitað um alla aðra þingmenn.