Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:45:37 (6644)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þingmenn Framsfl. í samgn. skrifa undir nál. með fyrirvara og standa að brtt. með minni hluta nefndarinnar. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ekki þarf lengur að deila um Skipaútgerð ríkisins. Það er búið og gert og í sjálfu sér féll það fyrirtæki öðru grónu fyrirtæki í hendur og ég vænti þess að sú starfsemi megi dafna og blómstra og þjóna sem best hinum dreifðu byggðum um allt landið. Sú brtt. sem hér liggur fyrir um að ráðherra sé heimilt að ráðstafa allt að 50 millj. kr. af því fé sem fæst hjá Skipaútgerð ríkisins til að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem við sölu skipanna missa nauðsynlega þjónustu held ég að sé afar mikilvæg. Það er enginn vafi að einhvers staðar skapast tómarúm í byggðunum og rétt að þarna sé varið fjármagni til að styrkja þessar byggðir svo fólkið missi ekki mikilvæga þjónustu sem það hefur haft.
    Ég vil taka undir það hér og hef íhugað það nú hvort við ættum að breyta þessari tillögu á ný með það í huga að ráðherra sé þetta heimilt í samráði við samgn. þingsins. Maður er að verða seinþreyttur á því sem hér hefur viðgengist í vetur og orðið hefð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr á stóli, að brjóta lög landsins og skammta í vasa ráðherranna fjármagni sem þeir deila og drottna með sem er andstætt lögum eins og ég hef hér sagt. Við höfum séð að þeir taka sér jafnvel tugi milljóna sem þeir ferðast um með og þykjast vera að lina þjáningar eftir ýmsar aðgerðir sem þeir hafa haft í frammi. Þetta er þekkt úr mörgum ráðuneytum á þessum vetri. Ekki er það síst hæstv. heilbrrh. sem hefur haft mikið slíkt fjármagn í vösum sínum. Þess vegna held ég að það væri ráðlegt að bæta þarna við setningunni ,,í samráði við samgn. eða fjárln. þingsins``.
    Ég sagði áðan að Skipaútgerð ríkisins hefði fallið öðru grónu fyrirtæki í hendur sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hitt er annað mál að það er eðlilegt að vekja athygli á því undir þessum umræðum, bæði hvað snertir þetta fyrirtæki og mörg önnur fyrirtæki í ríkisins eigu, að það ríkisvald sem nú situr, sem nú stjórnar, hefur haft þann háttinn á að ráðast að ríkisfyrirtækjunum, byrja á því að eyðileggja þau og verðfella og síðan að koma þeim í hendurnar á öðrum, ( Gripið fram í: Verðfella þau?) verðfella þau fyrir gæðingana sem eiga að kaupa. Við skulum gá að því að Sjálfstfl. er undir miklu álagi hvað þetta varðar. Upparnir og gróðaþyrstir unglingspiltar sem trúa á stefnuna og markaðslögmálin ganga hart að ráðherrum sínum að eyðileggja ríkisfyrirtækin, þeir séu menn til að kaupa þau og reka. Það getur vel verið að fjmrh. hlæi, en enginn hefur af meira virðingarleysi gengið fram en hæstv. fjmrh. sem fer með fjármál ríkissjóðs. Enginn maður hefur af meira virðingarleysi gengið fram, enda hygg ég að þetta lið, sem oft hefur litla reynslu í atvinnurekstri og hefur ekki einu sinni peninga, jafnvel skuldir og óreiðu, gangi hart að sínum mönnum að fá þessi fyrirtæki ríkissjóðs fyrir lítið. Ég hygg að örlög þessarar ríkisstjórnar, sem nú situr, verði svipuð og Margrétar Thatcher í Bretlandi sem stundaði það í tíu ár að láta peningamenn þess lands verja fjármagni í að kaupa ríkisfyrirtækin. Þar var ekkert nýtt gert fyrir fjármagnið. Það byggðist ekkert upp. Menn voru að fást við það að kaupa gróin ríkisfyrirtæki og í það fór krafturinn. Það skóp atvinnuleysið, það skóp neyðina og gerði að verkum að hún varð að hrökklast frá völdum tíu árum síðar. Hér situr ríkisstjórn sem ætlar að ganga í það verk, fer að öðruvísi að en Margrét Thatcher því að hún bar virðingu fyrir eigum ríkissjóðs. En hér eru menn sem enga virðingu bera fyrir eigum ríkissjóðs og við höfum séð það á mörgum sviðum. Við sjáum það t.d. á Áfengisverslun ríkisins þessa stundina þar sem útboð er á hluta þess fyrirtækis. Framleiðslan er stöðvuð og gammarnir vakka yfir þeim til að kaupa fyrirtækið. Sama er það á mörgum sviðum. Þar má nefna orkufyrirtækin, bankana, Póst og síma. Allt sem ber sig skal fara í hendurnar á því liði sem liggur á hægra brjóstinu á Sjálfstfl. og ætlar á næstu tíu árum að blóðsjúga þetta þjóðfélag.
    Það er mjög hættulegt ef menn átta sig ekki á þeirri stefnu, sem nú hefur verið mótuð, að eyðileggja ríkisfyrirtækin og láta bæði menn sem ekki kunna að reka fyrirtæki og fjármálamenn þessa lands vera í því að kaupa það sem til er fyrir í landinu í stað þess að verja fjármagninu til að byggja upp eitthvað nýtt, enda er þetta farið að skapa slíkt atvinnuleysi að hér erum við að verða á svipuðu stigi og margar þjóðir sem þar eiga við mestan vanda að glíma.
    En þetta var áminning um þá hættu sem við blasir. Það verður að flytja þessa ræðu til þess að menn fari að átta sig á því að hér er við völd ríkisvald sem ekki er treystandi til að fara með eigur almennings og sem betur fer eru að koma hingað hinir færustu menn á ýmsum sviðum í heimsviðskiptum sem segja á ráðstefnum og í fjölmiðlum að þær leiðir sem menn eru að fara í þessum efnum séu tískufyrirbrigði, þær hafi mistekist hvarvetna og ráðleggja bæði þessari ríkisstjórn og þessari þjóð að snúa af þeirri leið.
    En mín lokaorð eru þá þau að ég vil íhuga hvort við ættum að breyta tillögunni þess efnis að ráðherranum verði heimilt að verja þessu fjármagni í mikilvæg verkefni til þess að bæta aðstöðu byggðarlaganna, en það verði annaðhvort gert í samráði við samgn. þingsins eða fjárln. því að ég treysti ekki þeirri ríkisstjórn né þeim ráðherrum sem nú stjórna þessu landi.