Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:04:00 (6655)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Með samþykkt 6. gr. þess frv. sem nú er að verða að lögum er brotið í blað í sögu menntunar á Íslandi. Með samþykkt þessarar greinar er jafnrétti til náms afnumið í þessu landi og námsmönnum beint að bankakerfinu. Það er ljóst að bankakerfið er ekki í neinu standi til að taka við þessu fólki eins og er. Það hefur ekkert upp á að bjóða annað en venjulega vexti og sömu ábyrgð og krafist er um aðrar fjárskuldbindingar eins og margsinnis kom fram í gær þó að ósatt hafi verið sagt um það áður.
    Með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er verið að reyna að gera tilraun til að fá því breytt að námsmenn fái ekkert námslán á hausti komanda. Þess í stað verði þær 800 millj. sem eru á fjárlögum nýttar til að bæta úr þar sem brýnust er neyðin. Sá tími er að renna upp að konur eiga aftur að fara að vinna fyrir mönnum sínum í námi, ungar mæður eiga ekki að vera í námi. Upp er að renna menntakerfi hinna efnuðu. Því ég bið hv. Alþingi og þjóð alla að vita eitt: Með samþykkt þessa frv. er verið að stíga fyrsta skrefið til að afnema Lánasjóð ísl. námsmanna. Bankarnir neyðast auðvitað til þess að taka við þessu fólki og þurfa að vinna upp sitt eigið kerfi. Þegar það kerfi verður komið segja menn: Hvað erum við að gera með Lánasjóð ísl. námsmanna? Við þurfum ekki tvöfalt kerfi. Þar með hefur kolkrabbinn fengið sitt. Hann ræður líka hverjir fara til náms og hvað þeir læra. Ég segi að sjálfsögðu já við þeirri brtt. sem hér liggur fyrir.