Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:13:22 (6660)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa staðið yfir umræður um þetta mál, Lánasjóð ísl. námsmanna, í 42 klukkustundir. Ekkert mál hefur fengið eins ítarlega umfjöllun á Alþingi og stjórnarandstaðan hefur gert allt sem unnt er til að stöðva þá ósvinnu, þau ólög sem hér er verið að afgreiða. Hér er verið að ráðast að efnalitlu fólki í landinu. Hér er verið að ráðast að konum og þau sögulegu tíðindi hafa gerst að stærsta verkamannafélag á Íslandi, verkamannafélagið Dagsbrún, hefur sent frá sér ályktun þar sem þessi ólög eru fordæmd mjög harðlega. Það sem hér hefur gerst er svo það að Alþfl. hefur samþykkt ásamt íhaldinu að fella út úr lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna ákvæði um jafnrétti til náms. Alþfl. hefur samþykkt að leggja vexti á námslán, Alþfl. hefur samþykkt að loka Lánasjóði ísl. námsmanna hálft árið 1992, Alþfl. hefur samþykkt ásamt íhaldinu að svipta íslenska námsmenn framfærslueyri á hálfu árinu 1992. Og svo þykjast þeir vera Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þessi aðför að velferðarkerfinu á Íslandi verður ekki liðin. Við gerðum um það sérstaka samþykkt í þingflokki Alþb. áðan að við munum beita okkur fyrir því að taka þetta mál á ný upp á sumarþinginu. Ég lýsi því yfir að við munum halda þar áfram, en auðvitað segi ég nei við ólögum, virðulegi forseti.