Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:15:00 (6661)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Í dag verður tekið afdrifaríkt skref í menntasögu íslensku þjóðarinnar. Með samþykkt þessa frv. ríkir ekki lengur jafnrétti til náms án tillits til efnahags. Þegar námsmenn koma til starfa á hausti komanda verður búið að loka Lánasjóði ísl. námsmanna. Námsmenn munu þá þurfa að snúa sér til hins almenna bankakerfis um fyrirgreiðslu þrátt fyrir að lánasjóðurinn eigi um 800 millj. til að lána út, en samkvæmt lögum frá Alþingi má ekki lána það fé út. Ríkisstjórnin er að þvinga í gegnum þingið lög um Lánasjóð ísl. námsmanna í fullri andstöðu við námsmenn og ég fullyrði í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Ég segi nei.