Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:22:00 (6665)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Verði frv. sem hér liggur fyrir að veruleika, þá er það tímanna tákn. Þá er það tákn um að tímarnir fari versnandi a.m.k. á Alþingi og hér sé vegið að félagslegum ávinningum fyrri ára og áratuga. Í vetur hafa margar ákvarðanir verið teknar í þessum sal sem í verki og orði vega að jafnrétti og jöfnuði í þessu landi. Hér hafa verið teknar ákvarðanir um hundruð millj. kr. niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem kemur fyrst og fremst niður á barnafólki og öldruðum sem neytendum þjónustunnar og konum sem veitendum. Hér hefur verið brotið niður það sem byggt hefur verið upp á undangengnum áratugum. Hér hafa verið teknar ákvarðanir um að skera niður barnabætur um 500 millj. kr. sem kemur niður á ungu barnafólki með meðaltekjur og tæplega það. Þeir sem að þessum málum hafa staðið hafa hins vegar ekki snert sinn eigin viðmiðunarhóp með svo mikið sem töngum. Þegar að þeim hópi kemur er viðkvæðið: Þetta er viðkvæmt mál. Það er í mörg horn að líta. Það er margs að gæta. Þá eru málin viðkvæm. En þessi stefna ójöfnuðar er endanlega innsigluð í frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Nú á nefnilega að útrýma hugtakinu jafnrétti úr gildandi lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna og hver hefði trúað því að Jafnaðarmannaflokkur Íslands stæði að slíku? Ekki ég að óreyndu. En stjórnarliðar vita væntanlega sem er að innihald frv. er slíkt að það væri að leggja hugtakið jafnrétti við hégóma að halda því inni í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna að þeim svo breyttum. Með frv. er verið að auka efnalegt og félagslegt misrétti í íslensku samfélagi og innblásnar ræður einstakra stjórnarliða á hátíðarstundum fá því ekki breytt. Og að lokum hlýt ég að segja að ég harma að minn gamli félagi úr stúdentapólitíkinni skuli hafa látið kúska sig til hlýðni í þessu máli og ég vil bara segja: Sjálfstfl. er ekki þess virði og samstarfið við hann. Ég segi nei.